Leikfélag Selfoss mun hefja af fullum krafti núna í vikunni, vinnu við stóru uppsetningu vetrarins. Um er að ræða leikgerð Hafnarfjarðarleikhússins á Birting sem unnin er upp úr samnefndri sögu franska rithöfundarins Voltaire, í þýðingu Halldórs Laxness. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson sem er uppalinn hjá leikfélaginu og hefur leikstýrt nokkrum sinnum áður hjá Leikfélagi Selfoss.

Haldinn verður kynningarfundur fimmtudaginn 29. október kl. 20.00 í Litla leikhúsinu við Sigtún þar sem verkið, leikstjórinn og vinnan kringum sýninguna verður kynnt og allir þeir sem vilja taka þátt, hvort sem er á sviðinu eða bak við tjöldin, eru sérstaklega velkomnir en að sjálfsögðu er þetta líka vettvangur fyrir þá sem vilja einungis kynna sér verkið og hugmyndir leikstjóra.

Fyrsti samlestur verður svo haldinn næsta föstudag, 30. október og er hann einnig í Litla leikhúsinu kl. 19.30. Samlestrum verður svo framhaldið um helgina, svo þeir sem komast ekki á föstudag er bent á kynningarfundinn til að fá nánari tímasetningu um samlestra eða hafa samband í netfang eða símanúmerið hér að neðan.

Eins og venjulega vantar alltaf fólk í ýmis konar störf í kringum sýninguna, t.d. leikmyndasmíði, búninga, förðun, hár, miðasölu, hljóð- og ljósavinnu og svo auðvitað leikara til að standa á sviðinu. Við hvetjum fólk sem hefur áhuga á leikhúsi til að mæta á kynningarfundinn, ekki síst nýtt fólk sem langar að prófa að vera með. Bendum á að þetta er tilvalinn vettvangur fyrir þá sem sjá fram á minnkandi vinnu og meiri frítíma. Við tökum vel á móti öllum og allir eru hjartanlega velkomnir.
Nánari upplýsingar í netfangið leikfelagselfoss@gmail.com og hjá Sigrúnu formanni í síma 695 0586.

{mos_fb_discuss:2}