Nýr söngleikur Ólafs Hauks Símonarsonar, Fólkið í blokkinni, verður frumsýndur á stóra sviði Borgarleikhússins 10. október n.k. og er undirbúningur kominn á fullan skrið. Leikhúsið reiðir sig á aðstoð landsmanna, því nú vantar ekki einn og ekki tvo, heldur ríflega 400 stóla til notkunar í sýningunni. Óskað er eftir því að landsmenn komi með stóla sem þeim nýtast ekki lengur í Borgarleikhúsið, fimmtudaginn 12. júní á milli kl. 16-18. Þeir sem gefa stóla fá að launum gjafabréf á forsýningu verksins og fjórir heppnir fá áskriftarkort. Óskað er sérstaklega eftir þægilegum stólum úr borðstofum, eldhúsum, fundarherbergjum eða skólastofum, en stórir þægindastólar eru afþakkaðir. Tekið verður við stólunum í anddyri Borgarleikhússins.

 

Fólkið í blokkinni
Í söngleik Ólafs Hauks segir af fjörugu lífi fólks í blokk í Reykjavík. Fólkið í blokkinni ákveður að setja upp söngleik og efniviðurinn er það sjálft. Hárfinnur hárfíni er í forsvari fyrir hljómsveitina Sóma sem æfir og æfir í kjallaranum á meðan Robbi húsvörður reynir ólmur að koma í veg fyrir að söngleikurinn verði frumsýndur. Sjarmörinn Hannes reynir allt hvað hann getur til að ganga í augun á Söru, en ýmsar óheppilegar uppákomur og óvænt samkeppni gera honum það erfitt. Fólkið í blokkinni er fyrsta leikverkið sem frumsýnt er undir stjórn nýs leikhússtjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Þau Fillippía Elísdóttir og Vytautas Narbutas sjá um hönnun búninga og leikmyndar. Hljómsveitin fjöruga Geirfuglarnir verður einnig mjög áberandi á sýningunni. Leikarahópurinn samanstendur af sigldum rensluboltum svo sem Jóhanni Sigurðarsyni og Halldóru Geirharðsdóttur og  yngri vonarstjörnum eins og þeim  Söru Marty og Guðjóni Davíð Karlssyni svo einhverjir séu nefndir.

Gifturíkur ferill Ólafs Hauks Símonarsonar 
Ólafur Haukur Símonarson hefur á farsælum ferli skrifað sig inn í hjarta þóðarinnar, bæði með leikritum sínum, svo sem Gauragangi, eða ógleymanlegri tónlist, líkt og á plötunni Eniga Meniga.

Til hvers?
En hvers vegna þarf leikhúsið á öllum þessum stólum að halda? Leikstjórinn Unnur Ösp Stefánsdóttir og höfundurinn Ólafur Haukur eru æði leyndardómsfull og segja aðeins að stólarnir munu sannarlega koma að góðum notum við uppsetningu verksins. Leyndardómurinn á bak við stólasöfnunina verður ekki afhjúpaður fyrr en næsta haust þegar verkið verður frumsýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins í október.