Föstudaginn 2. desember næstkomandi frumsýnir Nemendaleikhús Listaháskóla Íslands verkið Jarðskjálftar í London eftir Mike Bartlett í Smiðjunni, Leikhúsi Listaháskóla Íslands að Sölvhólsgötu 13. Verkið er nú sett upp í fyrsta sinn á Íslandi í þýðingu Heiðars Sumarliðasonar og leikstjórn Halldórs E. Laxness. Í þessari mögnuðu rússíbanaferð þeytumst við um í tíma og rúmi frá 1968 til 2525 og aftur til baka. Ögrandi uppákomur, húmor og umfjöllunarefni sem á erindi við alla í dag. Sýningin fléttar saman tónlist, dans, og myndbandsverk sem á spennandi hátt fylla alla fleti leikhússins.

Verkið var frumsýnt í National Theatre í London árið 2010 við frábærar undirtektir og var Bartlett í kjölfarið hampað sem ferskri rödd í bresku leikhúslífi. Sýningin er hressileg umfjöllun um það sem framtíðin ber í skauti sér og þær miklu hamfarir sem ganga yfir samfélög okkar í dag. Sögð er saga af snörpum hræringum í lífi þriggja systra sem reyna af öllum mætti að bjarga sér og sínum úr hamförum og framförum nútímans á meðan faðir þeirra, heimsfrægur vísindamaður, boðar heimsendi. Burlesque fatafellur, martraðir, pólitísk spilling, mannfjöldasprengingar og allsherjar paranoia!

Halldór E. Laxness hefur leikstýrt fjölda sýninga allt frá árinu 1981 bæði hérlendis og erlendis og er hann einnig listrænn stjórnandi The Festival of New European Opera í Frakklandi og stofnandi Paradox hópsins í Los Angeles.  Leikmynd og búningar eru hönnun Tinnu Ottesen og myndbönd fyrir verkið eru unnin af Brynju Björnsdóttur. Hljóðmynd er í höndum Georgs Kára Hilmarssonar, lýsingu annast Jóhann Friðrik Ágústsson og danshöfundur er Brogan Davison.

Nemendaleikhúsið í vetur skipa: Hjörtur Jóhann Jónsson, Kolbeinn Arnbjörnsson, Olga Sonja Thorarensen, Ólöf Haraldsdóttir, Pétur Ármannsson, Saga Garðarsdóttir, Sara Margrét Nordahl, Sigurður Þór Óskarsson, Snorri Engilbertsson og Tinna Sverrisdóttir.

Sýningafjöldi er takmarkaður og er því ráðlegt að tryggja sér miða í tíma.  Miðasala fer fram á midasala@lhi.is, í síma 895 6994 og á midi.is.  Miðaverð er einungis 1500 krónur.

{mos_fb_discuss:2}