Á frumsýningu Leikfélags Sauðárkróks… ImageÁ frumsýningu Leikfélags Sauðárkróks á Jens og risaferskjan sl. föstudag varð ein leikkonan, Rakel Rögnvaldsdóttir fyrir því óláni að bráka svo illa á sér annan fótinn að aflýsa þurfti þremur sýningum sem vera áttu þá um helgina. Að mati læknis verður hún þó orðin nógu góð til að leika um næstu helgi og ætti ekki að koma að sök þó að persónan hennar (Bryðja, hin andstyggilega frænka söguhetjunnar Jens) þurfi að styðjast við staf.

Óhappið átti sér stað fyrir hlé eftir Bryðja hafði ásamt systur sinni Breddu af gefnu tilefni verið kramin af risaferskjunni en samt sem áður átti Rakel eftir að sinna nokkrum baksviðsverkum auk þess að dansa og syngja lokasöng leikritsins sem hún gerði í gegnum sársaukan án þess að áhorfendur yrðu nokkurs varir. Þetta verður hins vegar líklega í síðasta skipti sem eiginmaður hennar segir „break a leg“ fyrir frumsýningu.

Tveimur sýningum hefur verið bætt við í stað þeirra sem fella þurfti niður. Þær verða miðvikudaginn 16. nóvember kl. 18:00 og sunnudaginn 20. nóvember kl. 17:00. Sýnt er í Bifröst og miðaverð er 1.500 kr.