Leikdeild Skallagríms setur upp gamanleikinn Nanna systir eftir Einar Kárason og Kjartan Ragnarsson í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar. Eins og undanfarin ár sýnir Leikdeildin í félagsheimilinu Lyngbrekku á Mýrum og verður frumsýning á verkinu þann 11. Janúar næstkomandi. Tíu manna hópur leikara stendur á sviði að þessu sinni og eru það að miklu leiti andlit sem fólk ætti að kannast við frá síðustu árum, þó alltaf sé að sjálfsögðu reynt að koma nýju fólki að.

Fyrsti samlestur var þann 14. október og byrjaði æfingartímabilið frekar rólega þetta árið, fyrstu vikurnar var æft þrisvar í viku en svo fjölgaði æfingum smám saman fram að jólum. Nú er leikhópurinn kominn saman aftur eftir gott jólafrí og næstu daga má búast við þrotlausum æfingum og vinnu við lýsingu og sviðsmynd til að fullkomna verkið. Leikdeildin vonast til að sem flestir ákveði að kíkja í litla leikhúsið á Mýrunum og eigi þar góða kvöldstund með þeim á nýju ári.