Sumt fólk þolir ekki farsa. Það þolir ekki að horfa á persónur ljúga sig út úr vandræðum og koma sér með því í enn verri klípu. Það þolir ekki fullt af hurðum, misskilin símtöl og heimskar löggur. Þeir sem kannast við sig í ofangreindri lýsingu ættu ekki að fara að sjá Með vífið í lúkunum eftir Ray Cooney í Borgarleikhúsinu.
Þeir sem eru hins vegar til í að hlægja að vel skrifaðri vitleysu, ágætlega leikinni af nokkrum af okkar bestu gamanleikurum ættu hins vegar að drífa sig því heilt yfir tekst Þór Tuliníus leikstjóra og leikarahópnum stórvel að framreiða þennan sívinsæla farsa. Verkið á það reyndar sameiginlegt með Tveimur tvöföldum eftir sama höfund, sem Þór leikstýrði í Þjóðleikhúsinu fyrir nokkrum árum, að vera helst til langdregið en það kemur ekki alvarlega að sök þar sem það heldur vel dampi lengst af. Bláendirinn er síðan í ódýrari kantinum enda er það vel þekkt staðreynd að mun erfiðara er að leysa flækjur á snjallan hátt en að byggja þær upp.
Leikritið segir frá Jóni Jónssyni leigubílsstjóra sem er fullkomlega venjulegur náungi fyrir utan það að hann býr með tveimur eiginkonum sem ekki hafa hugmynd hvor um aðra. María býr í Breiðholtinu en Barbara í Hafnarfirði. Með mikilli skipulagninu og uppskáldaðri yfirvinnu gengur þetta prýðilega þangað til að Jón verður fyrir þeirri ógæfu að bjarga gamalli konu úr klóm óknyttaunglinga og hljóta í þakklætisskyni rothögg frá þeirri gömlu. Hann er þar með orðinn hetja dagsins og áður en hann veit af er búið að smella mynd af honum og Maríu og slá henni upp á forsíðu DV. Nú tekur við æðisgengin atburðarás þar sem Jón reynir með lygum, brögðum, dagblaðaáti og misgagnlegri hjálp vinar síns og nágranna, Steina Garðars, að koma í veg fyrir að upp komist um hið tvöfalda líf. Inn í atburðarrásina fléttast svo auk framantalinna, tveir rannsóknarlögreglumenn og tveir nýinnfluttir nágrannar Barböru og Jóns.
Það mæðir auðvitað mest á Steini Ármanni Magnússyni í hlutverki Jóns Jónssonar. Steinn Ármann er hinn ágætasti meðaljón, virkar ákaflega litlaus, óspennandi karakter og sérdeilis ólíklegur fjölkvænismaður. Þótt ljóst sé að einmitt þannig persóna eigi Jón að vera, hverfur Steinn Ármann stundum fullmikið í skuggann af þeim leikurum sem leika litríkari persónur.
Af þeim ber auðvitað fyrstan að telja Steina Garðars sem leikinn er af Eggerti Þorleifssyni, landsliðsframherja í gamanleik. Atvinnuauðnuleysinginn Steini, með sína vel meintu en mistæku hjálpsemi, verður í túlkun Eggerts sú persóna sem maður hefur mesta samúð með enda er Eggert svo góður gamanleikari að hann stelur senunni yfirleitt um leið og hann birtist. Af hverju hann var látinn vera með þessar hræðilegu hippatjásur væri hins vegar gaman að vita. Þær gerðu hann bara hálfvitalegan án þess að gera hann fyndnari eða bæta neinu við persónuna.
Það gustar svo sannarlega af Helgu Brögu Jónsdóttur í hlutverki Barböru, eiginkonu nr. 2. Það er synd hvað lítið hefur sést til Helgu Brögu á sviði undanfarin ár því hún er tvímælalaust ein okkar allra fyndnasta gamanleikkona (sem betur fer hefur hún sést því meira í sjónvarpi). Hún fer á kostum sem hin ástleitna Barbara og átti marga óborganlega spretti þar sem salurinn gjörsamlega kútveltist um af hlátri.
Eiginkona nr. 1, María, var leikin af Ólafíu Hrönn Jónsdóttur. Hún sveiflast frá því að vera umhyggjusöm og nærgætin eiginkona þegar allt leikur í lyndi til þess að ganga næstum berserksgang þegar hún kemst að því að eiginmaðurinn hefur óhreint mjöl í pokahorninu. María er ekki eins fyndin persóna og Barbara en verður skemmtilegri eftir því sem líður á leikritið og syrta tekur í álinn. Ólafíu hættir þó dálítið til að missa röddina út í mónótón sem gerir persónu hennar dálítið „flata“ á köflum. Það er satt að segja erfitt að ímynda sér reffilegra eiginkvennapar en þær Helgu Brögu og Ólafíu Hrönn og einkar vel til fundið að fá þær stöllur í þessi hlutverk.
Rannsóknarlögreglumennina tvo leika þeir Júlíus Brjánsson og Gunnar Hansson. Júlíus kemur skemmtilega á óvart sem hafnfirski rannsóknarlögreglumaðurinn Þórður. Honum tekst með holningunni einni saman að teikna upp hreint óborganlega týpu, velviljaðan og algjörlega vonlausan laganna vörð. Þrándur, varðstjóri í Rannsóknarlögreglunni, er hins vegar harðari týpa og um leið klisjukenndari. Gunnar gerir honum þokkaleg skil en bætir litlu við klisjuna um lögguharðnaglann og tvistið í lokin er nú svona frekar fyrirsjáanlegt (án þess að við Gunnar sé að sakast).
Í litlu hlutverki hommans Bobba, nágranna Jóns og Barböru í Hafnarfirðinum, er Halldór Gylfason og í enn minna hlutverki sambýlismanns hans Sigtryggs (og einnig ljósmyndara frá DV) er Árni Pétur Guðjónsson. Báðir leysa þessi hlutverk þokkalega af hendi en einhvern veginn gekk brandarinn með rauða lakkið ekki nógu vel upp sem gerði það að verkum Bobbi varð hálf utangátta. Svona steríótýpuhommar eru bara ekki sérlega fyndnir.
Þór Tulinius lætur augljóslega ágætlega að setja upp farsa þótt sýningin sé ekki alveg gallalaus. Tempóið er gott og nokkur af fyndnustu atriðunum eru greinilega ekki úr handritinu komin heldur frá leikurum eða leikstjóra. Nýuppfærð þýðing Árna Ibsen er afar vel af hendi leyst, staðfæringin gengur 100% upp og margt í henni einkar vel til fundið (t.d. heiðrun helga blettsins). Leikmynd Stígs Steinþórssonar er rétt mátulega smekkleg og þjónar verkinu vel eins og leikgervi Sigríðar Rósu Bjarnadóttur og búningar Stefaníu Adolfsdóttur gera almennt (fyrir utan hippatjásur Steina Garðars og afkárlega búninga hommanna tveggja). Lýsing Lárusar Björnssonar og hljóðmynd Baldurs Más Arngrímssonar voru eins þær eiga að vera í svona verkum, maður tók naumast eftir þeim.
Smá nöldur í lokin; Í leikskrá sýningarinnar er helst til mikið af beygingar- og innsláttarvillum. Ætti Leikfélag Reykjavíkur að sjá sóma sinn í að sjá til að betur sé vandað til verks þótt um samstarfsverkefni sé að ræða en leikskrár LR hafa hingað til verið prýðilega prófarkarlesnar.
Heilt yfir hefur tekist ágætlega til í þessu samvinnuverkefni Borgarleikhússins og Íslensku leikhúsgrúppunar, Með vífið í lúkunum er ágætlega útfærður farsi og afbragðsskemmtun fyrir þá sem hafa gaman af að hlægja að venjulegu fólki í fáránlegum aðstæðum. Hinir gera náttúrulega bara eitthvað annað.
Leikarar: Steinn Ármann Magnússon, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Helga Braga Jónsdóttir, Eggert Þorleifsson, Júlíus Brjánsson, Gunnar Hansson, Halldór Gylfason og Árni Pétur Guðjónsson.
Höfundur: Ray Cooney
Þýðing og staðfæring: Árni Ibsen
Leikstjóri: Þór Tulinius
Leikmynd: Stígur Steinþórsson
Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir
Búningar: Stefanía Adolfsdóttir
Ljósahönnun: Lárus Björnsson
Hljóð: Baldur Már Arngrímsson
Framleiðandi: Bjarni Haukur Þórsson