Jeppi á Fjalli flyst yfir á stærra svið í Gamla bíó til að anna eftirspurn og verður sýnt þar út janúar. Þessi grimmi gamanleikur Holbergs hefur slegið rækilega í gegn í haust en uppselt hefur verið á 57 sýningar verksins á Nýja sviði Borgarleikhússins. Hér seiða Benni Erlings, Bragi Valdimar og Megas epískan tónsjónleik þar sem Ingvar Sigurðsson leiðir frábæran leikhóp.
Nánar um Mary Poppins
Allt getur gerst í söngleiknum um Mary Poppins – ef þú leyfir því að gerast! Hér er ekkert venjulegt leikverk á ferðinni; sagan er leiftrandi og sjónarspilinu eru engin takmörk sett. Áhorfendur fylgjast með Mary Poppins lífga upp á heimilislífið í Kirsutrjárunni, breyta grárri Lundúnaborg í litríkt ævintýri þar sem sótarar dansa upp um veggi og loft. Tónlistina þekkja allir og hún birtist hér í nýjum heillandi útsetningum. Dansatriðin í Mary Poppins eru stórglæsileg enda gengur Íslenski dansflokkurinn til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari stórsýningu. Kvikmyndin um Mary Poppins sló rækilega í gegn um allan heim þegar hún var frumsýnd árið 1964 með Julie Andrews í aðalhlutverkinu. Myndin fékk fimm Óskarsverðlaun og er löngu orðin sígild. Það var svo árið 2004 að loks var gerður söngleikur. Hann fékk hreint ótrúlegar viðtökur þegar hann var frumsýndur á West End; hlaut sjö Tony verðlaun, m.a. sem besti söngleikurinn. Síðan hefur Mary Poppins farið sigurför um heiminn og notið mikilla vinsælda.
Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir uppfærslu Borgarleikhússins og Gísli Rúnar Jónsson annast þýðingu á lausu og bundnu máli. Tónlistin úr söngleiknum er komin út á geisladisk en tónlistarstjóri er Agnar Már Magnússon sem hann leiðir 11 manna hljómsveit sem spilar í sýningunni. Leikmyndahönnuður er Petr Hloušek, en hann hefur hannað fjölmargar stórsýningar víðsvegar um Evrópu og María Ólafsdóttir hannar búninga. Danshöfundur sýningarinnar er einn heitasti danshöfundur Evrópu, Lee Proud og hefur Íslenski Dansflokkurinn gengið til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari sýningu. Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson eru í hlutverkum Mary Poppins og sótarans Bert.
Nánar um Jeppa á Fjalli
Jeppi er drykkjumaður – en hann hefur líka góðar ástæður til að drekka! Hann er kúgaður kotbóndi, arðrændur og smáður auk þess sem konan hans heldur framhjá honum. Þar sem hann liggur brennivínsdauður í drullupolli birtist Baróninn ásamt fylgdarliði. Baróninn er sá sem allt á og öllu ræður en leiðist samt og nú verður Jeppi nýja leikfangið hans. Hvað gerist þegar kotbóndinn heldur að hann sé eitthvað? Jeppi hefur vakið hrifningu og aðdáun leikhúsgesta síðan hann var fyrst sviðsettur 1722 og nú er komið að okkur. Jeppi á Fjalli eftir Ludvig Holberg (1684–1754) er löngu orðið sígilt leikrit enda árlegur gestur á sviðum leikhúsa í Evrópu.
Uppsetning Borgarleikhússins er nýstárleg því sýningin er stútfull af nýrri tónlist sem flutt er lifandi í sýningunni. Sjálfur meistari Megas semur nýja tónlist og texta við verkið í samstarfi við Braga Valdimar. Benedikt Erlingsson leikstýrir, Gretar Reynisson er höfundur leikmyndar og Ingvar E. Sigurðsson fer með hið eftirsótta hlutverk Jeppa.