Laugardaginn 11. janúar kl. 20 frumsýnir Borgarleikhúsið Hamlet efir William Shakespeare á Stóra sviðinu. Þessi margrómaði harmleikur um Hamlet Danaprins er frægasta leikverk Shakespeares og mest leikna leikverk allra tíma. Teymi listrænna stjórnenda Hamlets er leikhúsgestum Borgarleikhússins að góðu kunnugt því þar fer mikið til sami flokkur og færði okkur Mýs og menn með leikstjórann Jón Pál Eyjólfsson í broddi fylkingar. Ilmur Stefánsdóttir hannar leikmynd, María Ólafsdóttir búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingu. Úlfur Eldjárn semur tónlistina fyrir vekið. Ólafur Darri Ólafsson er í hlutverki Hamlets og Ófelíu leikur Hildur Berglind Arndal.

Það eru viðsjárverðir tímar. Þjóðir vígbúast. Herlið eru á hreyfingu. Við skyndilegt fráfall Danakonungs hefur Danmörk fengið nýjan konung. Sá er bróðir hins látna og hann hefur tekið sér ekkjuna Gertrude, móður Hamlets, fyrir eiginkonu. Þegar grunsemdir vakna hjá Hamlet Danaprins hefur hann rannsókn á láti föður síns og verður skyndilega ógn við öryggi ríkisins. Hamlet leitar sannleikans og átökin magnast þar sem fjölskyldan og ríkið skelfur.

Hamlet er mest leikna leikverk allra tíma en það hefur verið sviðsett fimm sinnum á Íslandi. Fyrstur Íslendinga til að leika prinsinn var Lárus Pálsson árið 1949. Gunnar Eyjólfsson lék hann árið 1963 og næstum aldarfjórðungi síðar eða árið 1987 fór Þröstur Leó með hlutverkið í Iðnó. Hilmir Snær var Hamlet árið 1997 og loks Ívar Örn Sverrisson í uppfærslu LA árið 2002. Ólafur Darri Ólafsson er einn af okkar albestu leikurum. Hann hreif hug og hjörtu leikhúsgesta sem Lennie í Músum og mönnum á síðasta leikári og hlaut fyrir það Grímuna en auk þess hefur hann tekist á við stór kvikmyndaverkefni í Bandaríkjunum að undanförnu.