Miðvikudaginn 30. september verður leikverkið Mæður Íslands frumsýnt hjá Leikfélagi Mosfellssveitar. Mæður Íslands er nýtt, íslenskt leikverk, þar sem sagan er sögð frá sjónarhorni konunnar, móðurinnar og dótturinnar. Leikverkið er unnið út frá frásögnum og sögum um íslenskar konur, líf þeirra, tilfinningar, hvernig þær hafa áhrif á aðra og hvernig aðrir upplifa þær.

Verkefnið er unnið með „divised“ aðferð, þar sem unnið með leikhópnum og leikararnir skapa og skrifa leikverkið ásamt leikstjóra, en þó innan ákveðins ramma. Tónlistin er einnig samin sérstaklega fyrir verkið. Mæður Íslands er krefjandi, ögrandi og öðruvísi leikverk, þar sem fjallað er á einlægan hátt um alvöru tilfinningar og sannar sögur. Mæður Íslands er sýning sem snertir hjartað.

Listrænir stjórnendur verkefnisins eru þeir sömu og stóðu að baki söngleiknum Ronju Ræningjadóttur; Agnes Wild leikstjóri, Sigrún Harðardóttir höfundur tónlistar og Eva Björg Harðardóttir leikmynda- og búningahönnuður.

Sýningar verða í Bæjarleikhúsinu á sunnudögum kl. 20 í október og hægt er að nálgast miða í síma 566-7788.

Ljósmynd Solla Matt