Vegna fjölda áskorana verður efnt til aukasýninga milli jóla og nýárs á leikritinu Óhapp! eftir Bjarna Jónsson. Leikritið var fyrsta verkefni leikárs Þjóðleikhússins í haust og fékk afbragðs góða dóma og góðar viðtökur hjá áhorfendum. Verkið tekur á íslenskum veruleika með nýstárlegum hætti en viðfangsefni þess er sjónvarps- og fjölskylduumhverfi nútíma Íslendinga. Margir hafa líkt verkinu við Stundarfrið, leikrit Guðmundar Steinssonar sem þótti á sínum tíma ná á einstaklega glöggan og frumlegan hátt að tjá ástand íslensku þjóðarinnar.

 

Í verkinu er litið inn til ungra hjóna sem eru að gera upp glæsilega íbúð, en samtímis að takast á við erfiða reynslu úr fortíðinni. Fjölmiðlafólkið sýnir einnig á sér nýja og óvænta hlið þar sem meistarakokkur töfrar fram gómsætan rétt úr kunnuglegu hráefni og sálfræðingur lætur ljós sitt skína. Þetta hljómar jú eins og prýðilegt efni í gott sjónvarp. Eða er þetta leikhús? Hver ber ábyrgðina í þessu máli?
   
Leikstjóri sýningarinnar er Stefán Jónsson, höfundur leikmyndar er Börkur Jónsson en hljóðmynd gerir Frank Hall. Meðal leikara í sýningunni eru Atli Rafn Sigurðarsson, Dóra Jóhannsdóttir, Kjartan Guðjónsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og Stefán Hallur Stefánsson.
   
Leikhúsunnendur geta gengið að fjölbreyttum úrvalssýningum yfir hátíðarnar í Þjóðleikhúsinu því auk Óhapps! verða einnig sýningar á íslensku barnaleikriti, Góðu kvöldi eftir Áslaugu Jónsdóttur og ævintýrasöngleiknum Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson og Jóhann G. Jóhannsson. Unnendur erlendrar samtímaleikritunar geta einnig séð verk þýska leikskáldsins Rolands Schimmelpfennigs, Konan áður, á Smíðaverkstæðinu. Sem fyrr verður jólasýning leikársins frumsýnd á Stóra sviðinu á annan í jólum en að þessu sinni verður jólafrumsýningin aðlögun leikstjórans Baltasars Kormáks á æskuverki Antons Tsjekhovs, Ívanov.
   
Nánari upplýsingar um dagskrá leikhússins má finna á heimasíðunni www.leikhusid.is.