Jólasýning Þjóðleikhússins er aðlögun leikstjórans Baltasars Kormáks á Ívanov eftir Anton Tsjekhov. Verkið verður frumsýnt á á Stóra sviðinu þann 26. desember nk. og hefst sýningin kl. 20.

Ívanov var áður drífandi athafnamaður en nú, aðeins hálffertugur að aldri, er hann útbrunninn. Hann finnur hvorki orku né vilja til eins eða neins, sinnir ekki veikri konu sinni og er við það að láta vonleysið ná tökum á sér. Sasha, ung og fögur menntakona, verður yfir sig ástfangin af Ívanov og einsetur sér að bjarga honum. Titilhlutverkið er leikið af Hilmi Snæ Guðnasyni en konurnar í lífi hans leika Margrét Vilhjálmsdóttir og Laufey Elíasdóttir. Aðrir leikarar í sýningunni eru Ilmur Kristjánsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Ólafur Egill Egilsson, Ólafur Darri Ólafsson og Þröstur Leó Gunnarsson.

Þetta æskuverk Tsjekhovs fjallar ekki aðeins á heillandi hátt um sjálfselsku og vanmátt mannsins til þess að takast á við sjálfan sig og umhverfi sitt heldur er leikritið um Ívanov einnig óvenjuleg ástarsaga þar sem afar stutt er milli hláturs og gráts. Titilpersónan er ein af heillandi persónum leikskáldsins – fullur af mótsögnum, hrífandi og óþolandi í senn.

Leikstjórinn Baltasar Kormákur hefur á undanförnum árum unnið jöfnum höndum við leikhús og kvikmyndagerð. Aðlögun hans á Ívanov eftir Anton Tsjekhov í Þjóðleikhúsinu er óvenjulegt systurverkefni við kvikmyndina Brúðgumann sem byggir á sama verki og verður frumsýnd á vegum framleiðslufyrirtækisins Sagnar í janúar. Myndin var tekin upp í Flatey sl. sumar en sami leikhópur og listrænu stjórnendur standa að verkefnunum tveimur. Áhorfendum gefst því einstakt tækifæri til þess að sjá þetta heillandi verk í tveimur ólíkum miðlum.

Baltasar hefur átt farsælt samstarf við leikmyndahöfundinn Gretar Reynisson og búningahönnuðinn Helgu I. Stefánsdóttur og heldur það nú áfram en þau unnu t.d. saman að sýningunum Þetta er allt að koma og Pétri Gaut í Þjóðleikhúsinu. Um hljóðmynd sér Sigurður Bjóla en hönnuður lýsingar er Páll Ragnarsson en þess má geta að þeir tóku einnig þátt í uppfærslu Péturs Gauts. Þessi margverðlaunaða uppfærsla Baltasars hefur farið víða, hún hefur m.a. verið leikin í Barbican leikhúsinu í London og í Noregi og verður sett upp í Brussel í febrúarmánuði.

{mos_fb_discuss:2}