Lokasýning á Zombíljóðunum verður á Litla sviðinu föstudaginn 14. október. Það kostar ekkert inn á sýninguna en tekið verður á móti frjálsum framlögum til Fjölskylduhjálpar Íslands. Zombíljóðin eru nýtt verk úr smiðju Borgarleikhússins og Mindgroup. Á undan komu Þú ert hér og Góðir Íslendingar. Þremenningarnir sem stóðu að þeim verkum eru Jón Atli Jónasson, Jón Páll Eyjólfsson og Hallur Ingólfsson. Í þessari sýningu hafa þeir fengið liðsstyrk Halldóru Geirharðsdóttur sem skrifar og flytur verkið með þeim.

Aldrei áður hefur manneskjan fengið jafn mikla vitneskju um harm annara en sjáum við í raun og veru hvort annað? Finnum við minna til með öðrum  eða höfum við fórnað mennskunni fyrir tilveru án sársauka? Í verkinu er endursagt margt það óhugnanlegasta úr samtíma okkar og horfst í augu við hvernig samfélagið tekur á sársauka sem mannanna verk valda. Það er því vel við hæfi að lokasýning þessa verks sé helguð samtökum sem leggja sig fram um að hjálpa þeim sem minna mega sín í samfélaginu.

Tilvera okkar er á endimörkum sögunnar. Engar nýjar hugmyndir. Það er búið að hugsa þær allar. Það er búið að lofa okkur sársaukalausri tilveru í þægilegum sófa. Án núnings og fjarri hinu óþekkta. Við erum vel undirbúnir ferðalangar. Ekkert kemur okkur á óvart lengur. Allt er eins og það var auglýst. Það sem okkur hefur hlotnast eigum við ávallt skilið. Eigum engum neitt að þakka nema okkur sjálfum. Við erum frábær. Við erum dugleg. Við erum snillingar. Ef hið ókunna birtist á meðal okkar girðum við það af eða stöðvum það með byssukúlu og sendum hræið í rannsókn upp á náttúrufræðistofnun. Við getum ekki leyft hinu ókunna að standa í bensínpolli með kveikjara. Það má auðvitað koma okkur þægilega á óvart, en þægindin eru rofin þegar orð verða að byssukúlum. Þegar barn er borið út. Þegar einhver tekur eitrað amfetamín. Þarf að fórna mennskunni fyrir tilveru án sársauka?

Eitt af markmiðum leikhússins er að benda á og vekja til umhugsunar. Í Zombíljóðum tekst listamönnunum sannarlega ætlunarverk sitt og þar heppnast afskaplega vel að flytja alvöru harmsögur úr okkar nánasta umhverfi og velta upp áleitnum spurningum um samfélag okkar af miklum metnaði en um leið af nærgætni og kærleika. Við eigum að þora að taka á viðkvæmum málum og krefja okkur til að líta í eigin barm. Daglega berast okkur fregnir af hörmungum og þjáningu af ýmsu tagi í fjölmiðlum og netheimum, – margir einstakir atburðir sem því miður eru ekki einsdæmi. Við veitum þeim ekki alltaf athygli, eða brynjum við okkur fyrir þeim? – „Svaf ég meðan hinir þjáðust?“

Þetta er þriðja sýning þremenninganna Jóns Atla Jónassonar, leikskálds, Jóns Páls Eyjólfssonar og Halls Ingólfssonar. Í þessari sýningu hafa þeir fengið liðsstyrk: Halldóru Geirharðsdóttur, leikkonu sem skrifar og flytur verkið með þeim. Fyrri sýningarnar, Þú ert hér og Góðir Íslendingar hafa vakið mikla athygli bæði hérlendis og einnig hjá erlendu leikhúsfólki. Sýningarnar voru sýndar á leiklistarhátíðum í Berlín og Wiesbaden í Þýskalandi.

{mos_fb_discuss:2}