Sviðslistamiðstöð á Egilsstöðum hleypir nú í haust af stokkunum verkefninu Leiksmiðja Austurlands sem samanstendur af röð leiklistartengdra námskeiða í fjórðungnum. Verkefnið er styrkt af Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Menningarráði Austurlands. Fyrsta námskeið Leiksmiðjunnar verður þriggja helga námskeið í handritagerð og leikstjórn sem haldið verður 26. október til 10. nóvember í Menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Kennarar námskeiðsins eru Auðdís Tinna Hallgrímsdóttir, kvikmyndagerðarmaður, og Kristian Guttesen, ljóðskáld.

Helgina 1. – 3. nóvember er stefnt að því að fara í leikhús- og fræðsluferð til Akureyrar, ef aðstæður leyfa. Námskeiðið er ætlað öllum sem áhuga hafa á handritagerð og leikstjórn fyrir sviðsuppsetningar eða kvikmyndagerð og er ætlað byrjendum jafnt sem lengra komnum.

Auðdís Tinna er fædd 1988 og uppalin í Fellabæ á Fljótsdalshéraði. Hún útskrifaðist með stúdentspróf af félagsfræðibraut Verkmenntaskólanum á Akureyri árið 2008 og hugurinn stefndi strax erlendis í kvikmyndagerðaskóla. Tinna komst inn í nokkra skóla en valdi að stunda nám við Eicar – International Film School  í París og útskrifast þaðan nú í haust eftir 3ja ára nám með BA gráðu í kvikmyndagerð, þar sem hún sérhæfði sig í leikstjórn og handritagerð. Hún hefur m.a. gert tónlistarmyndband fyrir Jónínu Aradóttur, var að vinna heimildarmynd um Bræðsluna ásamt Aldísi Fjólu Ásgeirsdóttur og skrifaði og leikstýrði stuttmyndinni Love and Other Bodily Functions sem er útskriftarverkefni hennar frá Eicar.

Kristian er fæddur í Danmörku þar sem hann ólst upp fyrstu ár ævi sinnar. Hann bjó á Íslandi 1980 – 1981 og frá 1985, en dvaldi við  nám í Bretlandi frá 1995 þar sem hann lauk BS prófi í  hugbúnaðarverkfræði frá Glamorgan háskólanum í Wales 1999. Kristian hefur frá tvítugsaldri birt sögur og ljóð í tímaritum og  dagblöðum á Norðurlöndum og á síðasta námsári sínu í Wales ritstýrði hann bókmenntatímaritinu Eclipse. Haustið 2006 var Kristian ritstjóri Hermes, tímarits heimspekinema við HÍ. Frá sumrinu 2011 hefur hann ritstýrt sem og safnað og samið efni fyrir vef um gagnrýna hugsun og siðfræði í skólum fyrir Heimspekistofnun HÍ. –http://gagnryninhugsun.hi.is/ – og frá 2012 til 2013 gegndi hann stöðu formanns Félags heimspekikennara. Hann hefur gefið út sjö frumortar ljóðabækur og eina þýðingu. Fyrir þýðinguna var hann tilnefndur til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2007.

Námskeiðsgjald er kr. 25.000

Nánari upplýsingar og skráning er hjá Sigríði Láru Sigurjónsdóttur, verkefnastjóra sviðslista hjá Fljótsdalshéraði, í síma 862 5404 eða svidslistir@egilsstadir.is