Leikfélag Kópavogs hyggst halda úti öflugri starfsemi í vetur líkt og undanfarna vetur. Þegar eru hafin námskeið fyrir börn og unglinga og framundan eru uppsetningar á þremur leikþáttum nú í október, fyrirlestrar um leiklistarsögu og svo aðalverkefni vetrarins sem ætlunin er að frumsýna í janúar. Rúnar Guðbrandsson hefur verið ráðinn til að leikstýra því.

Undanfarið hafa staðið yfir námskeið fyrir tvo aldurshópa barna og unglinga undir handleiðslu Ástbjargar Rutar Jónsdóttur. Annars vegar er hópur 11 og 12 ára barna og hins vegar 13–16 ára unglinga. Alls sækja 24 þátttakendur námskeiðin og skín brenanndi áhugi og sköpunarkraftur úr hverju andliti. Leikstarf með yngri aldurshópnum er tilraunaverkefni og verður ekki annað sagt en að sú tilraun hafi lukkast vel, aðsóknin er góð og krakkarnir sýna mikinn áhuga. Báðum námskeiðunum lýkur í nóvember með einfaldri leiksýningu.

Föstudaginn 4. okt. verður fitjað upp á nýjung í félagsstarfinu. Þá efnir Hörður Sigurðarson til fyrirlesturs um leiklistarsöguna. Fyrirlesturinn verður í tveimur hlutum, sá fyrri verður fluttur í Leikhúsinu föstudaginn 4. okt. og hefst kl. 19.30 en sá seinni föstudaginn 1. nóv. á sama stað og tíma. Þetta er kjörinn vettvangur fyrir alla áhugamenn og hægt að lofa fróðleik og góðri skemmtun.

Helstu viðfangsefni aðaldeildar félagsins næstu vikurnar eru æfingar á þremur leikþáttum en þeir verða frumsýndir í lok október. Tíu leikarar taka þátt og leikstjórar eru Hrund Ólafsdóttir, Hörður Sigurðarson og Örn Alexandersson. Þau eru öll úr röðum félagsmanna, margreynd og hafa öll fært upp hjá félaginu áður. Til dæmis stýrði Örn á síðasta ári uppsetningu á eigin verki, hinum ógnarvinsælu Guttavísum sem byggðist á vinsælum kvæðum Stefáns Jónssonar.

Þegar leikdagskráin, sem nú er í undirbúningi hefur runnið sitt skeið, hefjast æfingar á aðalviðfangsefni vetrarins. Leikfélagið hefur ráðið Rúnar Guðbrandsson, til að stýra. Verkið verður frumsýnt í janúar ef fer sem horfir og verður tilkynnt um verkefnavalið fljótlega. Rúnar hefur um áratugaskeið verið meðal okkar athyglisverðustu leikhúsmanna, sem leikari, höfundur og leikstjóri. Hann hefur jafnframt getið sér gott orð sem kennari, m.a. í Leiklistarskóla Bandalagsins.