Dómnefnd Þjóðleikhússins hefur valið sem áhugaverðustu áhugaleiksýninguna 2006-2007 Listina að Lifa, sýningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á verki Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar.

Þjóðleikhússtjóri, Tinna Gunnlaugsdóttir, tilkynnti valið á hátíðarkvöldverði á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga, Hallormsstað.

Greinargerð dómnefndar má lesa hér.

thrainn_sigga_stor.jpg Dómnefnd Þjóðleikhússins hefur valið sem áhugaverðustu áhugaleiksýninguna 2006-2007 Listina að Lifa, sýningu Leikfélags Fljótsdalshéraðs á verki Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar. Þjóðleikhússtjóri, Tinna Gunnlaugsdottir, tilkynnti valið á hátíðarkvöldverði á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga, Hallormsstað.

Jafnframt bauð hún Leikfélagi Fljótsdalshéraðs að sýna Listina að lifa í Þjóðleikhúsinu á næstu vikum. Höfundur verksins Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Þráinn Sigvaldason formaður félagsins tóku við viðurkenningunni.

Eftirfarandi er skýrsla dómnefndar um valið í ár.

Athyglisverðasta áhugaleiksýning
leikársins 2006 – 2007

Val Þjóðleikhússins á athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins hefur nú farið
fram fjórtánda leikárið í röð. Tíu leikfélög sóttu eftir að koma til greina við valið
með alls 10 sýningar. Þar af kom eitt leikfélagið að tveimur uppsetningum.
Dómnefnd Þjóðleikhússins í ár var skipuð Tinnu Gunnlaugsdóttur þjóðleikhússtjóra
og Hlín Agnarsdóttur listrænum ráðgjafa Þjóðleikhússins.
.
Eftirtalin leikfélög sóttu um með þessar sýningar:

1. Halaleikhópurinn Batnandi maður eftir og í leikstjórn Ármanns Guðmundssonar.

2. Hugleikur Epli og eikur eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar.

3. Hugleikur og Leikfélags Kópavogs Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

4. Leikfélag Fljótsdalshéraðs Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar.

5. Leikfélags Hornafjarðar
Fiðlarinn á þakinu eftir Joseph Stein og Jerry Bock í leikstjórn Ingunnar Jensdóttur.

6. Leikfélag Siglufjarðar Láttu ekki deigan síga, Guðmundur eftir Eddu Björgvinsdótturog Hlín Agnarsdóttur í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar.

7. Leikdeild Ungmennafélagsins Íslendings
Maður í mislitum sokkum eftir Arnmund Backman í leikstjórn Ásu Hlínar Svavarsdóttur.

8. Leikdeild Ungmennafélagsins Vöku í samstarfi við Ungm.fél. Baldur og Ungm.fél. Samhygð:
Draumur á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare í leikstjórn Gunnars Sigurðssonar.

9. Skagaleikflokkurinn
Salka Valka eftir Halldór Laxness í leikstjórn Ingu Bjarnason.

10. Stúdentaleikhúsið Examínasjón í leikgerð og leikstjórn Guðjóns Þorsteins Pálmarssonar

Tvö leikfélög sóttu um eftir að umsóknarfrestur rann út, en það voru annars vegar Leikfélag Hveragerðis með Jesus Christ Superstar og hins vegar Leikfélag Vestmanneyja með Himnaríki eftir Árna Ibsen. Þau komu því ekki til álita við valið.

Við val á athyglisverðustu leiksýningu leikársins 2006-2007 hafði dómnefndin því miður ekki tök á að sjá allar ofangreindar sýningar í þeirra heimabyggð. Samkvæmt nýjum umsóknarreglum verða leikfélögin nú að senda inn mynddiska með upptökum af sýningum og í ár hefur það komið að verulegu gagni við valið.

Sýningar leikfélaganna voru þetta árið eins og öll hin fjölbreyttar bæði hvað varðar innihald og útlit en það sem vekur athygli er að helmingur sýninganna byggir á frumsömdu efni. Fjögur leikskáld úr röðum áhugamanna stíga á stokk og skrifa sérstaklega fyrir leikhópana en þau eru Ármann Guðmundsson, Hrefna Friðriksdóttir, Sigríður Lára Sigurjónsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir en þau hafa öll nokkra reynslu af starfi með áhugaleikhúshreyfingunni. Að auki skrifað Guðjón Þorsteinn Pálmarsson með leikhópi Stúdentaleikhússins.

Það er afar ánægjulegt að kynnast þessari grósku í leikritaskrifum sem að okkar mati er verulega athyglisverð. Það er einnig athyglisvert að sjá hvað sum leikfélög leggja mikið á sig til að gera sýningar sínar sem bestar úr garði, ekki aðeins leiklega, heldur einnig þegar kemur að leikstjórn og sviðsetningu. Áhugaleikfélögin sýna dirfsku á mörgum sviðum m.a. í beitingu nýjustu tækni í ljósum, hljóði og myndvinnslu. Áður en kemur að því að tilkynna hvaða leiksýning hlýtur þann heiður að vera valin Athyglisverðasta leiksýning ársins er vert að minnast á þær sýningar sem dómnefndinni þóttu koma til álita við valið:

Hugleikur og Leikfélag Kópavogs með Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur fyrir samstilltan leik, snjallar sviðslausnir og hárfínar tímasetningar, enda ekki við öðru að búast þegar Ágústa Skúladóttir heldur um tauminn.

Hugleikur með Epli og Eikur eftir Þórunni Guðmundsdóttur í metnaðarfullri leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar þar sem góður leikur og tónlistarflutningur voru í fyrirrúmi.

Halaleikhópurinn með Batnandi maður eftir og í leikstjórn Ármann Guðmundsson, fyrir hressilega ádeilu á samskipti fatlaðra og ófatlaðra, tryggingakerfið og sértrúarsöfnuðina.

Leikfélag Fljótsdaldshéraðs með Listina að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur fyrir
vel skrifað leikrit í frumlegri uppfærslu Odds Bjarna Þorkelssonar

Stúdentaleikhúsið fyrir frumleg efnistök í hópverkinu Examinasjón undir stjórn Guðjóns Þorsteins Pálmarssonar og ekki síst fyrir sýningarstaðinn í gömlu Kartöflugeymslunni í Ártúnsbrekku.

Auk þessara sýninga sýndu áhugaleikfélögin sígild verk eftir skáldjöfra eins og William Shakespeare og Halldór Laxness sem hlýtur að hafa mikið uppeldisgildi fyrir alla þátttakendur, sérstaklega þegar kemur að leiktúlkun og textameðferð.

Og þá er komið að því að veita viðurkenningu fyrir Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins 2007. Eins og fyrri daginn reyndist þetta ekki létt verk, það var einfaldlega úr mörgu að velja.

Dómnefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að velja að þessu sinni sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu leikársins 2006 -2007 sýningu Leikfélags Fljótsdalshérðs á Listin að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorklessonar.

listinfors2.pngUmsögn Dómnefndar:

Í Listinni að lifa fer saman góð tilfinning höfundar fyrir því sem gerir texta áhugaverðan til flutnings á leiksviði sem og skapandi og frumleg úrvinnsla leikstjórans á efnivið höfundar. Leikritið lýsir lífi þriggja einstaklinga nánast frá vöggu til grafar og er margslungið í einfaldleika sínum. Höfundur fjallar m.a.um ást og vináttu, framhjáhald og svik og gefur okkur leikræna mynd af þeim línudansi sem lífið stundum er. Leikendurnir þrír skila þessum línudansi af sannfæringu og skapa þannig eftirminnilega sýningu. Í uppfærslunni hefur leikstjórinn unnið meðvitað með leikmynd, liti, ljós og hljóð, allt til að ná fram áhrifum leiktextans og sérkennum persónanna í verkinu. Í heildina er Listin að lifa verulega athyglisverð leiksýning þar sem leiktexti mætir leiksviði í frjóu og fallegu sampili.

{mos_fb_discuss:3}