Leikgerðina um Stígvélaða köttinn gerði Anna Bergljót Thorarensen. Þetta er annað leikritið sem hún skrifar fyrir hópinn en hún hefur verið meðlimur í Leikhópnum Lottu frá stofnun hans árið 2006. Ný tónlist hefur einnig verið samin fyrir verkið og tóku bræðurnir Baldur og Snæbjörn Ragnarssynir að sér það hlutverk.
Stígvélaða köttinn þekkja flestir en auk hans eru ævintýrin um Nýju fötin keisarans og Birnina þrjá fléttuð inn í söguþráðinn. Alls eru sex leikarar í sýningunni sem skipta á milli sín 13 hlutverkum. Þá er flutt lifandi tónlist, söngur og dans og því nóg um að vera. Herlegheitunum er síðan leikstýrt af Ágústu Skúladóttur sem stýrir einnig Dýrunum í Hálsaskógi sem sett verður upp í Þjóðleikhúsinu í haust.
Miðaverð á sýninguna er 1.500 krónur og ekki þarf að panta miða fyrirfram heldur er alveg nóg að mæta bara á staðinn. Gott er að klæða sig eftir veðri þar sem sýnt er utandyra. Þá mælir Lotta með því að foreldrar taki myndavélina með þar sem áhorfendur fá að hitta persónurnar úr leikritinu eftir sýningu. Öllum þykir jú gaman að eiga mynd af sér með uppáhalds vini sínum úr Ævintýraskóginum.
Nánari upplýsingar um sýninguna má finna á www.leikhopurinnlotta.is og í síma 770-0403.
{mos_fb_discuss:2}