Leikfélag Keflavíkur stendur í ströngu þessa dagana og er mikið líf í Frumleikhúsinu. Stuttu eftir aðalfund tók ný stjórn sig til og hóf framkvæmdir við breytingar á húsinu sem óðum eru að klárast. Meðal þess sem hefur verið gert er að búningageymsla hefur verið færð og gamla búningageymsaln rifin ásamt milliveggjum í kjallara, farið var yfir alla búninga og leikmuni og ýmsu hent sem hafði safnað ryki undanfarin ár ef ekki áratugi. Einnig má geta þess að Leikfélagið fékk nú nýlega aðgang að rými sem áður var nýtt undir keramikaðstöðu aldraðra og mun það án efa nýtast félaginu mjög vel í framtíðinni.

Nú í vor fékk félagið styrk frá Menningarráði Suðurnesja til uppsetningar á barna og unglingasöngleik og hefur stefnan verið sett á að setja upp söngleik í samstarfi við nýupprisna unglingadeild. Ekki hefur okkur ennþá tekist að krækja í leikstjóra sem væri til þess fallinn að taka þetta verk að sér, enda þarf  sá hinn sami að hafa  góða reynslu og næmt auga og eyra fyrir söng og dansi. Ef einhver þarna úti telur sig búa yfir slíkum hæfileikum má hann endilega setja sig í samband við stjórn Leikfélags Keflavíkur því tíminn er naumur og er okkur mjög umhugað um að ráða góðan  leikstjóra sem allra fyrst. Áætlað er á að æfingar hefjist í lok ágúst og frumsýnt verði um miðjan október.

{mos_fb_discuss:3}