Borgarleikhússið kynnir leikárið 2012-2013. Dagskrá leikársins er viðameiri en nokkru sinni og hvergi er slegið af frá fyrra ári sem var gjöfult. Fleiri verk en nokkru sinni fyrr, 26 titlar, verða á boðstólum í Borgarleikhúsinu í vetur, þar af eru 18 íslensk verk. Á Stóra sviðinu verða m.a. sýnd Mary Poppins, Mýs og menn, Á sama tíma að ári og Bastarðar. Boðið er upp á sérlega mörg ný íslensk leikverk þetta leikár. Ragnar Bragason þreytir frumraun sína í leikritun, Jón Atli Jónasson sendir frá sér nýtt leikrit og þrjú ung og kraftmikil leikskáld verða kynnt til sögunnar.

Stóra sviðið
Viðamesta sýning sem Borgarleikhúsið hefur ráðist í verður frumsýnd í febrúar. Þar er á ferðinni frumflutningur hérlendis á einum vinsælasta söngleik heims, Mary Poppins. Bergur Ingólfsson stýrir yfir fjörtíu manna hópi listamanna í söngleik sem gerður er upp úr Óskarsverðlaunamyndinni sígildu. Jóhanna Vigdís Arnardóttir er í titilhlutverki en í öðrum burðarhlutverkum eru Guðjón Davíð Karlsson, Esther Thalía Casey og Halldór Gylfason. Íslenski dansflokkurinn gengur til liðs við Borgarleikhúsið enda er dans veigamikill þáttur í sýningunni. Leikárið hefst þó á  Stóra sviðinu á frægustu sjóræningjasögu allra tíma Gulleyjunni í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar með nýrri tónlist eftir Þorvald Bjarna. Björn Jörundur er í hlutverki Langa Jóns Silfur.

Í septemberlok frumsýnum við Á sama tíma að ári, hjartnæman og bráðfyndin gamanleik með Nínu Dögg Filippusdóttur og Guðjóni Davíð Karlssyni í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar og Bjarna Hauks Þórssonar. Gísli Örn Garðarson og félagar í Vesturporti eru við stjórnvölinn í Bastörðum, sýningu sem sett er upp í samstarfi fjögurra leikhúsa. Hér er um mikið sjónarspil að ræða eins og venja er hjá Vesturporti. Sagan er eftir Richard Lagravanese og leikstjóra. Í aðdraganda jólanna snýr hin margrómaða fjölskyldusaga Ingmars Bergmans, Fanný og Alexander aftur á svið en boðið verður uppá örfáar aukasýningar af verkinu fyrir þá sem ekki náðu að tryggja sér miða á síðasta leikári. Jólasýningin í ár er Mýs og menn, meistaraverk bandarískra bókmennta í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Það eru þeir Ólafur Darri Ólafsson og Hilmar Guðjónsson sem fara með hlutverk vinanna Lennie og George. Í lok mars gefst Íslendingum svo færi á að sjá háskaleik Kristjáns Ingimarssonar, BLAM!, sem hlaut hin virtu Reumert verðlaun sem sýning ársins í Danmörku. Stórhættulega fyndin upplifun sem slegið hefur rækilega í gegn í Danmörku og vakið verðskuldaða athygli víða um heim.

Nýja sviðið
Á Nýja sviðinu hefst haustið með leikgerð Ólafs Egils Egilssonar á hinni vinsælu skáldsögu Bergsveins Birgissonar Svar við bréfi Helgu. Sýningum í vor lauk fyrir troðfullu húsi og við höldum því sýningum áfram nú í haust. Eins og lesendur þekkja er hér sögð heillandi saga af því sem aldrei varð. Þröstur Leó, Ilmur Kristjánsdóttir og Sigrún Edda Björnsdóttir fara með aðalhlutverkin undir leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur. Í nóvember frumsýnum við Gullregn, nýtt leikrit eftir Ragnar Bragason sem hann leikstýrir einnig. Þetta er frumraun Ragnars í leikhúsi en hann er einn fremsti kvikmyndagerðarmaður þjóðarinnar. Gullregn fjallar um Íslendinga nútímans með öllum sínum kostum og göllum. Mannlegt leikrit sem er harmrænt og broslegt í senn. Mugison semur tónlistina en leikarar eru Sigrún Edda, Halldóra Geirharðs, Brynhildur Guðjóns, Hallgrímur Ólafs og Halldór Gylfason. Í febrúar fá leikhúsunnendur tækifæri til að sjá rómaða uppfærslu á Gunnlaugs sögu Ormstungu í meðförum þeirra Halldóru Geirharðsdóttur og Benedikts Erlingssonar. Ormstunga var fyrst sett upp í Skemmtihúsinu árið 1996 og olli straumhvörfum í íslensku leikhúsi. Segja má að sýningin hafi verið upphafið að bylgju sem Mr. Skallgrímsson, Jesú litli, Dauðasyndirnar og Sjeikspír eins og hann leggur sig eru sprottin úr. Sýningin naut mikilla vinsælda á sínum tíma og snýr nú aftur.

Litla sviðið
Af mörgu er að taka á Litla sviðinu og er dagskráin fjölbreytt en aðaláherslan þar er á ný og íslensk verk– hrollvekjandi og kætandi. Glænýtt margverðlaunað meistaraverk ríður á vaðið í lok september: Rautt eftir bandaríska leikskáldið John Logan. Sögusviðið er vinnustofa eins mikilvægasta listmálara 20. aldarinnar, Mark Rothko. Rautt er afar vel skrifað leikrit sem hreyfir við, spyr og afhjúpar.  Nóttin nærist á deginum er ögrandi nýtt leikrit eftir Jón Atla Jónasson sem verður frumsýnt í lok janúar í leikstjórn Jóns Páls Eyjólfssonar. Síðasta leikrit hans, Djúpið, hlaut einstaklega góðar viðtökur enda feikivel flutt og áhrifamikið. Er nær dregur vori verða þrjú ný íslensk leikrit – Skríddu, Svona er það þá að vera þögnin í kórnum og Skúrinn á þléttunni flutt undir samheitinu Núna!. Þrjú ung leikskáld, þau Kristín Eiríksdóttir, Salka Guðmundsdóttir og Tyrfingur Tyrfingsson skrifuðu verkin fyrir Borgarleikhúsið.

Vegna mikilla vinsælda snúa nokkrar sýningar aftur frá fyrra leikári í takmarkaðan tíma. Barnasýningarnar Skoppa og Skrítla og Gói og baunagrasið munu halda sínu striki. Hundur í óskilum heldur áfram að sýna hina stórskemmtilegu Sögu þjóðar. Um jólin verður Jesús litli á dagskránni eins og venjulega þegar aðventan gengur í garð. Sýningin var ótvíræður sigurvegari Grímunnar árið 2010, hlaut samtals 7 tilnefningar og var valin sýning ársins og leikrit ársins. Loks er það Tengdó sem snerti áhorfendur djúpt á síðasta leikári og var ótvíræður sigurvegari Grímuverðlaunanna síðast liðið vor, en hún hlaut meðal annars verðlaunin sem sýning ársins og leikrit ársins.

Áskriftarkortin
Áfram verður boðið upp á einfalt og þægilegt áskriftarfyrirkomulag, fjórar sýningar að eigin vali  af allri dagskrá vetrarins á einungis 12.900 krónur (30% afsláttur af verði aðgöngumiða). Fyrir fjórum árum reið Borgarleikhúsið á vaðið með áskriftarkort fyrir ungt fólk. Viðtökurnar voru með eindæmum og því verður að sjálfsögðu áfram boðið upp á kort á kostakjörum fyrir ungt fólk, fjórar sýningar á 8.500 krónur.

Aðsókn í Borgarleikhúsið hefur á undanförnum fjórum árum verið  meiri en nokkru sinni í sögu íslensks leikhúss. Áhorfendur hafa verið yfir 210.000 á ári síðustu þrjú ár. Samhliða því varð sprenging í sölu áskriftarkorta og hefur fjöldi kortagesta fjölgað tuttugufalt.

ID
Íslenski dansflokkurinn mun brátt kynna glæsilega dagskrá fyrir starfsárið en allar sýningar flokksins má velja með í áskriftarkort Borgarleikhússins.