Leikfélagið Sýnir sýnir tvær sýningar til viðbótar af Gangverkunum sem leikfélagið sýndi fyrr í sumar. Sýningarnar verða laugardaginn 1. september og sunnudaginn 2. september kl. 17.00. Sýnt er í Elliðaárdal, sýningin tekur um klukkutíma í flutningi og áhorfendur eru hvattir til að klæða sig eftir veðri. Aðgangseyrir er 1.000 kr. og leiksýningin hefst á bílastæðinu við Félagsheimili Orkuveitunnar. Aðeins verða sýndar þessar 2 sýningar.

Gangverkin spyr stórra spurninga um hlutverk mannsins í náttúrunni, er hún hans eign eða hann hennar? Verkið endurspeglar viðleitni mannsins til að bregðast við utanaðkomandi árhrifum tækni og nýjunga sem hann er þó óumflýjanlega háður.

Verkið sömdu nokkrir meðlimir leikfélagsins og er leikstjórn jafnframt í höndum félagsmanna. Þetta er fjórða verkið sem leikfélagið sýnir í Elliðaárdal en áður hefur það sýnt þar Draum á Jónsmessunótt eftir Shakespeare (2003), Máfinn eftir Chekhov (2006) og Allir komu þeir aftur eftir Dorfman (2010).