Í vetur stendur UNIMA (alþjóðleg samtök brúðuleikhúsfólks) fyrir svokölluðum ,,Kúlukvöldum í lok hvers mánaðar í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu (að Lindargötu 7). Þar verða gestir leiddir inn í töfrandi heim brúðuleikhússins með lifandi og fjölbreyttri dagskrá. Miðvikudaginn 26. nóvember kl 20:00 verður haldið síðasta Kúlukvöldið fyrir jól.
,,Áhrifamáttur leikbrúðunnar
Dagskrá kvöldsins:
Hugleiðingar um áhrifamátt brúðuleikhússins
Hallgrímur Magnússon, geðlæknir á Landspítalanum, fjallar um áhrifamátt brúðuleikhússins. Hallgrímur hefur í yfir 50 ár haft mikinn áhuga á brúðuleikhúsi og séð brúðuleikhússýningar í ýmsum löndum.
Ég gleymi því sem ég heyri, ég man það sem ég sé en skil það sem ég geri
Bergljót Inga Kvaran, kennari og meðferðarráðgjafi hjá BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans), mun fjalla um hvernig nota má leikbrúður í kennslu og uppeldi barna, sem og í forvarnarstarfi.
Brúðuleikhús Blátt áfram: Krakkarnir í hverfinu
Hallveig Thorlacíus brúðuleikari fjallar um sýningu sem unnin er í samstarfi við Blátt áfram samtökin. Í sýningunni eru brúður notaðar til að nálgast viðkvæmt málefni; ofbeldi gegn börnum. Sýningin flakkar á milli grunn- og leikskóla og er unnin í samstarfi við sérfræðinga á hverjum stað.
Aðgangur er ókeypis og opinn öllum!