Þann 29. nóvember næstkomandi verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu leikritið Lápur, Skrápur og jólaskapið eftir Snæbjörn Ragnarsson. Það mun vera seinni frumsýning á verkinu þetta árið því þann 22. nóvember frumsýndi Leikfélag Akureyrar sama verk í Rýminu. Sýningarnar verða keyrðar samhliða og þykir það harla óvenjulegt að tvær uppsetningar á sama verkinu séu sýndar á sama tíma. Það er Guðjón Þorsteinn Pálmarsson sem leikstýrir á Akureyri en Anna Bergljót Thorarensen sunnan heiða.

„Það eru allir komnir í jólaskapið í Grýluhelli. Allir nema Lápur og Skrápur. Grýla er ekki sátt við þessa syni sína og sendir þá af stað til að leita að jólaskapinu og bannar þeim að koma til baka áður en þeir eru búnir að finna það. Leitin ber tröllastrákana inn í herbergi til Sunnu litlu og hún ákveður að hjálpa þeim við leitina. Það reynist vandasamt verk og saman lenda þau í allskonar ævintýrum.“

Lápur, Skrápur og jólaskapið er fjölskylduskemmtun í anda jólanna þar sem íslenskum jólahefðum er gert hátt undir höfði. Verkið var fyrst sett upp 2007 af Kraðaki e.h.f. sem nú setur verkið upp í samvinnu við Borgarleikhúsið. Eftir sýningu, beggja vegna heiða, er fólki boðið að þiggja veitingar og hitta persónurnar úr leikritinu. Hægt er að panta miða á báðar sýningarnar á www.midi.is og hjá leikhúsunum.

{mos_fb_discuss:2}