Kómedíuleikhúsið á Ísafirði frumsýnir föstudaginn 17. september einleikinn Bjarni á Fönix á söguslóðum í Alviðru í Dýrafirði. Sýnt verður í gömlu hlöðunni og hefst sýningin stundvíslega klukkan 21:00. Önnur sýning fer svo fram laugardaginn 18. september á veitingastaðnum Talisman á Suðureyri, þar hefst borðhald kl. 19.00 og leiksýning að því loknu um kl. 21.00.

Skipherrann Bjarni Þorlaugarson á skútunni Fönix háði frækinn bardaga við hátt í 30 Fransmenn um miðja nítjándu öld. Bardaginn stóð yfir í heila fjóra klukkutíma, að vísu tóku menn sér stutta pásu í miðjum átökum, og gekk Bjarni óskaddaður af vettvangi. Skömmu síðar fannst sjórekið lík af einum Fransmanni og voru uppi kenningar um að Bjarni hafi orðið hans bani. Mál var dómtekið og þurfti Bjarni þá að spyrja sig þeirrar samviskuspurningar: Drap ég mann eða drap ég ekki mann?

Sagan af Bjarna skipherra á Fönix er sönn vestfirsk hetju- og þroskasaga. Í þessu leikverki skiptast á ástir og átök úr íslenskum raunveruleika. Bjarni á Fönix er kraftmikil sýning sem lætur engan ósnortinn. Leikari er Ársæll Níelsson sem jafnframt er höfundur ásamt leikstjóra verksins Elfari Loga Hannessyni. Leikmynd og búninga gerir Marsibil G. Kristjánsdóttir. Bjarni á Fönix er fyrsta frumsýning Kómedíuleikhússins á þessu leikári.

Miðapantanir í síma 891-7025

Gestir eru hvattir til að mæta klæddir eftir veðri.

{mos_fb_discuss:2}