Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra sæmdi í gær Halaleikhópinn Kærleikskúlunni 2008. Magnús Geir Þórðarson Borgarleikhússtjóri afhenti Guðný Öldu Einarsdóttur leikkonu fyrsta eintakið við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur.
Leiklistarvefurinn óskar Halaleikhópnum innilega til hamingju!
Kærleikskúlan í ár er hönnuð af Gjörningaklúbbnum sem nefnir hana ALLT SEM ANDANN DREGUR. Biskup Íslands blessaði kúluna. Gjörningaklúbburinn var með gjörning við afhendinguna. Tilganguinn með framleiðslu og sölu kúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna með því að efla starfsemi Reykjadals.
Kærleikskúlan er blásin upp af því dýrmætasta sem hverri lifandi manneskju er gefið andardrætti.
Andinn í kúlunni er táknrænn fyrir hið ósnertanlega og andlega, langanir og þrár.
Kúlan er kysst þremur kossum sem fela í sér tjáningu ástar, vináttu og þakklætis.
Kyssum hvert annað .. !
Nánari upplýsingar um Kærleikskúluna má finna á vef Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.