eftir Dario Fo

Fyrr á tíð brugðust yfirvöld við sviðsetningum Commedia dell´Arte-leikara með því að flæma þá úr landi. Yfirstandandi kreppa veldur því að leikarar og leikhópar eiga í erfiðleikum með að finna leikrými og að ná til áhorfenda með sýningum sínum. Þar sem gagnrýnið leiklistarfólk býr við þær aðstæður að hafa hvorki leiksvið né áhorfendur stafar yfirvöldum engin hætta af þeim lengur.

Á tímum endurreisnarinnar á Ítalíu urðu valdhafar hins vegar að leggja mikið á sig til þess að hafa taumhald á gamanleikurum, enda nutu hinir síðarnefndu almennrar hylli. Það er alkunna að mikill flótti brast á í liði Commedia dell´Arte-leikara eftir að starfsemi flestra leikhúsa var lögð niður í kjölfar endurreisnarinnar, þó aðallega í Róm þar sem leiklistin var álitin móðgun við hina helgu borg. Árið 1697 lét Innocentius XII páfi undan áköfum kröfum íhaldssamari borgara og forvígismanna klerkastéttarinnar og lét rífa Tordinona leikhúsið, en siðferðispostularnir héldu því fram að grófustu leiksýningarnar hefðu farið fram á fjölum þess.

Þegar and-endurreisnin gekk í garð lagði Carlo Borromeo kardináli á Norður-Ítalíu sig fram um að fordæma „börnin í Mílanó“ og gerði skýran greinarmun á list, hinu æðsta formi andlegra mennta, og leiklist sem hann taldi holdgervingu guðlasts og hégóma.
Í bréfi sem hann sendi samverkamönnum sínum og ég vitna til hér að neðan – þó ekki orðrétt – segir:

„Við höfum einsett okkur að uppræta illgresið og höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til þess að brenna illræmdar ræður, uppræta þær í minni manna og við höfum einnig sótt til saka þá sem koma slíkum textum á prent. En á meðan á því stóð fann djöfullinn upp á nýjum klækjum. Hversu afgerandi eru ekki áhrif þess sem augað sér fremur en áhrif þess sem lesa má af bókum! Hversu skelfilegri afleiðingar hefur ekki hið talaða orð og látbragð á sálir ungmenna og ungra stúlkna heldur en dauður bókstafurinn! Nú ríður á að við rekum leikhúsmenn burt úr borgum okkar, eins og illa anda.“

Það er því óskandi að reynt verði með skipulögðum hætti að hrekja okkur á brott, ekki síst unga fólkið sem vill mennta sig í leiklistinni; að leiklistarfólki verði tvístrað öðru sinni, enda myndi slík áþján án efa verða til þess að endurnýja listformið.

Þýðing Bjarni Jónsson

Dario Fo, fæddur 24. mars 1926, er ítalskur ádeiluhöfundur, leikskáld, leikstjóri, leikari, tónskáld og handhafi Nóbelsverðlauna í bókmenntum árið 1997.  Höfundaverk hans byggir á hinni fornu ítölsku commedia dell´arte aðferð, leikhúsaðferð sem var vinsæl meðal lægri stétta.  Verk Dario Fo þykja gagnrýninn á skipulagða glæpastarfsemi, pólítíska spillingu, Kaþólsku kirkjuna og stríðið í mið- austurlöndum.