Pálína Jónsdóttir leikhúslistamaður og Trausti Ólafsson leiklistarfræðingur halda 36 stunda námskeið í markvissri þjálfun í list og tækni leikarans í mars og apríl. Námskeiðið er fyrir þá sem hafa áhuga á að nýta dýnamískar aðferðir leiklistarinnar til að vinna heildrænt með líkama og rödd. Námskeiðið er fyrir sviðslistafólk, þá sem hafa leiklistarmenntun og vilja tileinka sér aðferðir til að efla sviðslist sína og tækni og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í leiklist. Jafnframt nýtist námskeiðið þeim sem þurfa að koma fram með einum eða öðrum hætti í starfi sínu. Námskeiðið reynir á krafta og þol og þurfa þátttakendur að vera líkamlega hraustir. Aldurstakmark 19 ár og umsóknarfrestur rennur út 25. febrúar.

 

Námskeiðslýsing
I. Kennd verða undirstöðuatriði Suzuki leikaraþjálfunar þar sem þáttakendur læra líkamlegt æfingakerfi aðferðarinnar. Í tengslum við æfingarnar verður unnið með texta úr Brandi eftir Henrik Ibsen í þýðingu Matthíasar Jochumssonar. Kennari Pálína Jónsdóttir.

II. Þátttakendur fá markvissa þjálfun í textagreiningu og athöfn með virkri beitingu ímyndunarafls með því að kafa í texta og útfæra hann án skírskotunar til atburðakeðju leikrits eða hefðbundinnar persónusköpunar leikara. Unnið með texta úr Brandi eftir Henrik Ibsen í þýðingu Matthíasar Jochumssonar. Kennari Trausti Ólafsson.

III. Kenndar verða spunaaðferðir og leikhústungumál Viewpoin aðferðarinnar sem þjálfar einstaklings-og hópsamvinnufærni leikarans í tíma og rými. Unnið verður með Brand og sjálfvalda nútímatexta. Kennari Pálína Jónsdóttir.

Umsókn sendist fyrir 25. febrúar í netfang: pj@talnet.is eða to@hi.is

Kennarar
Pálína útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1995. Hún hefur starfað hérlendis og erlendis við leikhús og kvikmyndir. Pálína lauk námi í kennsluréttindum frá LHÍ árið 2009 og framhaldsnámi í Columbia University í NYC í Suzuki, Viewpoint og Composition leiklistaraðferðum undir leiðsögn Anne Bogart og Siti Company.

Trausti lauk doktorsprófi í leiklistarfræðum frá University of East Anglia í Bretlandi árið 2003. Áður stundaði hann meðal annars nám við Oslóarháskóla og Leiklistarháskólann í Prag. Trausti var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar á árunum 1996-1998 og hefur kennt við Háskóla Íslands frá haustinu 2004.

Suzuki
Suzuki leikaraþjálfunarkerfið er þróað af hinum heimsfræga japanska leikhúslistamanni Tadushi Suzuki. Aðaláherslan er lögð á að endurbyggja líkama leikarans inn í samhengi leikhússins í þeim tilgangi að fletta ofan af meðfæddum hæfileikum hans í þágu listrænnar sköpunargáfu. Þjálfunin er hárnálvæm og líkamlega erfið, samsett úr margvíslegum líkamsæfingakerfum, s. s. ballet, japnskri og grískri leiklist og sjálfsvarnaraðferðum. Markmið þjálfunarinnar er að auka tilfinningalegt og líkamlegt vald leikarans á sjálfum sér og gera hann færan um að lifa í augnablikinu á sviðinu. Áhersla er lögð á neðri hluta líkamans, einkum fæturna, og stuðla valdi leikarans á öndun og einbeitingu.

Textagreining og athöfn
Hefðbundin textagreining bygggist oftast á vitsmunum og fræðilegri nálgun. Í virkri textagreiningu með athöfn er leikarinn hvattur til að beita öllum skilningarvitum, innsæi og líkamanum til þess að kanna víddir textans á virkan hátt án þess að fyrirfram gefnar hugmyndir hindri sköpunarvinnuna.

Viewpoints
Viewpoints (sjónarhornin) er spunaaðferð sem á upptök sín í póstmóderníska dansheiminum og var set fram af danshöfundinum Mary Overlie og síðar aðlöguð fyrir leikara af Anne Bogart. Viewpoints er leikhústungumál sem skilgreinir það sem gerist á sviðinu og samanstendur af hugtökum sem lýsa reglum hreyfinga í tíma og rúmi. Viewpoints er hagnýt aðferð sem byggir á samvinnu leikhúslistamanna, eins konar verkfærakassi sem gefur hópi leikara tækifæri til að skapa og vinna með atriði leiklistarinnar sem standa utan hefðbundins frásagnarramma.

{mos_fb_discuss:3}