Tveir íslenskir leikhópar, Stopp-leikhópurinn og Tímamótaverksmiðjan, og hljómsveitin Ljótu hálfvitarnir hyggjast heimsækja Færeyjar dagana 24.-26. septemberog  halda þar tónleika og sýna leiksýningar. Fyrst er þó ætlunin að hita upp fyrir ferðina hér heima fyrir og afla fjár til ferðarinnar og verða leiksýningarnar Bólu-Hjálmar og Jörundur því sýndar saman í Norræna húsinu kl. 20.00, laugardaginn 18. september. Ljótu hálfvitarnir halda jafnframt sína síðustu tónleika hérlendis á þessu ári á Rosenberg föstudaginn 17. september.

Leiksýningarnar eiga það m.a. sammerkt að leikstjóri þeirra beggja er Ágústa Skúladóttir og höfundar Jörundar, Ármann Guðmundsson og Þorgeir Tryggvason, eru ásamt þeim Snæbirni Ragnarssyni og Sævari Sigurgeirssyni einnig höfundar Bólu-Hjálmars. Allir eru þeir svo meðlimir í Ljótu hálfvitunum. Allir hóparnir leggja mikið upp úr sterkum tengslum við áhorfendur, ákveðnu virðingarleysi fyrir formi og sterkri þörf fyrir að skemmta fólki.

Stoppleikhópurinn kemur með verðlaunasýninguna Bólu-Hjálmar, sem segir sögu litríks alþýðuskálds sem glímdi við fátækt, fjandskap nágranna sinna og harðneskju yfirvalda alla sína tíð, en skildi eftir sig ótrúlega magnaðan skáldskap. Hópurinn segir sögu Hjálmars með leik, söng og látbragði. Sýningin hlaut Grímuverðlaunin sem Barna og unglingaleiksýning ársins 2009, en höfðar til allra aldurshópa.

Tímamótaverksmiðjan flytur dagskrá um Jörund Hundadagakonung, og ótrúlegt lífshlaup hans. Jörundur er frægastur fyrir að hafa rænt völdum á Íslandi og ríkt sem einvaldur sumarið 1809. En saga hans er öll hin ótrúlegasta. Hann varð fyrsti daninn til að sigla umhverfis jörðina, eftir að hafa verið hvalafangari í suðurhöfum, landkönnuður og njósnari. Drykkjuskapur og fjárhættuspil settu sífelld strik í reikninginn, uns að lokum að hann var dæmdur til refsivistar á Tasmaníu. Sagan er sögð af tveimur leikurum og þremur hljóðfæraleikurum með aðferðum frásagnarleikhússins.

Ljótu hálfvitarnir hafa farið mikinn í tónleikahaldi undanfarin ár og hafa gefið út þrjár plötur sem allar heita í höfuðið á hljómsveitinni. Hljómsveitina skipa níu norðlendingar sem spila á fjölbreytt úrval hljóðfæra og skiptast gjarnan á þeim milli laga. Tónleikar sveitarinnar minna einna helst á einhverskonar þjóðlagakabarett, þar sem húmorinn og spilagleðin eru í fyrirrúmi.

Leikhóparnir og hljómsveitin munu svo flytja dagskrá sína í Sjónleikarahúsinu í Þórshöfn laugardaginn 25. september og í Nolsoy sunnudaginn 26. september en auk þess hyggjast Ljótu hálfvitarnir spila föstudagskvöldið 24. september í Þórshöfn.

{mos_fb_discuss:2}