Þann 14. apríl n.k. frumsýnir Þjóðleikhúsið Hálsfesti Helenu, nýtt verðlaunaleikrit eftir eitt þekktasta nútímaleikskáld Kanada, Carole Fréchette.

Hálsfesti Helenu er einstaklega áhrifamikið verk, innblásið af dvöl höfundar í Líbanon árið 2000. Aðalpersóna verksins er Helena, búsett í norðlægu landi, sem er á heimleið af ráðstefnu í borg í Austurlöndum nær, þar sem uppbygging er hafin eftir langvarandi stríðshörmungar. Hún týnir hálsfesti og fær leigubílstjóra til að aðstoða sig við að leita að henni. Í leitinni öðlast hún nýjan og persónulegan skilning á samskiptum ólíkra menningarheima, hins arabíska og hins vestræna og verður ljóst að “við getum ekki lifað svona lengur.”

 

eddaa.jpgCarole Fréchette er meðal þekktustu leikskálda samtímans í Kanada. Leikrit hennar hafa verið þýdd yfir á fjölmörg tungumál og sýnd víðsvegar um heiminn, og hún hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín. Hálsfesti Helenu hefur verið sýnt víða um heim. Það var frumflutt í Sýrlandi vorið 2002, en hefur einnig verið sýnt í Kanada, Frakklandi, Líbanon, Belgíu, Sviss, Senegal, Bandaríkjunum og Portúgal. Í undirbúningi eru nú sýningar í Japan og á Martinique.

Edda Arnljótsdóttir leikur Helenu, en Guðrún Snæfríður Gísladóttir og Arnar Jónsson fara með önnur hlutverk.
Leikstjóri er María Sigurðardóttir en þetta er í fyrsta sinn sem María leikstýrir í Þjóðleikhúsinu eftir að hafa sett upp tugi leiksýninga, meðal annars í Borgarleikhúsinu og víða um land.
Leikmynd og búninga gerir Helga I. Stefánsdóttir, lýsingu annast Lárus Björnsson og Ester Ásgeirsdóttir hannar hljóðmynd. Hrafnhildur Hagalín þýddi verkið.

Í tengslum við sýningar á Hálsfesti Helenu mun Café Cultura í Alþjóðahúsinu bjóða upp á matseðil í anda Austurlanda nær.

{mos_fb_discuss:2}