Það er ekki oft sem verk eftir leikskáld allt niður í 17 ára aldur rata á svið Þjóðleikhússins. Árleg örleikritasamkeppni fræðsludeildar hússins og leiklistardeildar LHÍ gerir það þó mögulegt. Samkeppnin er opin framhaldsskólanemum um land allt og fer úrslitakvöldið 2007 fram í kvöld, þriðjudag kl. 20.00 á Stóra sviðinu og er aðgangur ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

 

Af innsendum verkum í ár hafa sex verið valin til þess að keppa til úrslita. Verða þau leikin af leiklistarnemum á 1. og 2. ári í LHÍ.

Hinn gamalreyndi leikstjóri Þórhallur Sigurðsson leiðbeinir við uppsetningu leikþáttanna, auk þess sem höfundarnir sjálfir eiga þess kost að sitja æfingarnar.

Þriggja manna dómnefnd mun velja þau þrjú verk sem hljóta verðlaun annað kvöld. SPRON er styrktaraðili samkeppninnar og gefur peningaverðlaun að upphæð alls 100 þúsund krónur.

Titill samkeppninnar í ár er SKÁPUR og reglurnar eru í mjög stuttu máli svona:
Lengd: Hámark 10 mínútur. Lágmark 5 mínútur
Leikarar: 3 eða færri.
Leikmynd: Gamall skápur– ekkert annað.
Leikmunir: Engir

{mos_fb_discuss:3}