Nýlega fór fram fjórða úthlutun úr Leikritunarsjóðnum Prologos, sem starfar við Þjóðleikhúsið. Umsóknir voru fjölmargar að vanda, en alls bárust 36 umsóknir nú. Þrír höfundar hljóta handritsstyrki og einn leikhópur hlýtur styrk vegna leiksmiðjuverkefnis.
Höfundar sem hlutu styrk að þessu sinni til að þróa áfram leikhandrit sín eru Didda Jónsdóttir vegna handritsins Vonska, Einar Þór Gunnlaugsson vegna handritsins Pinsilon og Illugi Jökulsson vegna handritsins Þorlaug. Sviðslistahópurinn Kviss búmm bang hlaut styrk til að vinna leiksmiðjuverkefnið Get a Life!
Didda Jónsdóttir hefur vakið athygli fyrir ljóð sín, sem meðal annars hafa birst í ljóðabókinni Lastafans og lausar skrúfur. Hún sendi einnig frá sér skáldsögurnar Erta og Gullið í höfðinu: hetjusaga. Hún hlaut Edduverðlaunin fyrir leik sinn í kvikmyndinni Stormviðri, og var tilnefnd til sömu verðlauna fyrir leik sinn í Skrapp út.
Einar Þór Gunnlaugsson lærði kvikmyndaleikstjórn við London Film School. Hann hefur leikstýrt heimildarmyndum og kvikmyndum, og unnið við handritsráðgjöf fyrir kvikmyndir. Hann hefur birt smásögur í blöðum og tímaritum. Einar Þór skrifaði og leikstýrði kvikmyndunum Þriðja nafnið og Heiðin.
Illugi Jökulsson hefur sent frá sér fjölda bóka af ýmsu tagi, bæði skáldskap og alþýðlega sagnfræði. Jafnframt hefur hann þýtt leikrit, samið leikgerðir bæði fyrir svið og útvarp, og samið útvarps- og sjónvarpsleikrit. Hann gerði meðal annars leikgerð eftir skáldsögum Guðrúnar Helgadóttur, Sitji guðs englar, sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu.
Kviss búmm bang er listhópur þriggja kvenna sem hafa bakgrunn í sviðslistum og sviðslistafræðum, myndlist og kynjafræði. Hópinn skipa þær Eva Rún Snorradóttir, Vilborg Ólafsdóttir og Eva Björk Kaaber. Þær stóðu að sýningunni Eðlileikarnir 2009 á leiklistarhátíðunum Lókal og ArtFart í september.
Prologos hefur þegar styrkt átján verkefni
Leikritunarsjóðurinn Prologos hefur nú starfað við Þjóðleikhúsið í rúmt ár og er honum ætlað að efla íslenska leikritun og hvetja til nýsköpunar í leikhúsinu. Óhætt er að segja að sjóðurinn hafi boðið leikhúsfólki mikilsverð tækifæri til að vinna að list sinni, en nú þegar hafa alls tíu leikskáld og sex leiksmiðjuverkefni hlotið styrk úr sjóðnum.
Tvö leiksmiðjuverkefni sem sjóðurinn hefur styrkt hafa þegar verið sett á dagskrá Þjóðleikhússins, annars vegar Völva eftir Pálínu Jónsdóttur og Walid Breidi sem frumsýnd var í Kassanum í október og hins vegar Af ástum manns og hrærivélar sem frumsýnt verður í Kassanum í apríl. Aðstandendur síðarnefnda verkefnisins eru Ilmur Stefánsdóttir, Kristján Ingimarsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Valur Freyr Einarsson. Einnig sýndi Íslenska hreyfiþróunarsamsteypan leiksmiðjuverkefnið Shake me/Hristu mig á Reykjavík Dance Festival í september, og leikhópurinn 16 elskendur sýndi Nígeríusvindlið, verk í vinnslu, í Kassanum í október.
Prologos hefur einnig styrkt útgáfu tveggja nýrra íslenskra leikrita, Frida… viva la vida eftir Brynhildi Guðjónsdóttur og Utan gátta eftir Sigurð Pálsson.
Fjölmargir leikhúslistamenn hafa áður hlotið styrk úr sjóðnum
Þeir höfundar sem áður hafa hlotið styrk úr sjóðnum eru Auður Ava Ólafsdóttir, Bjarni Jónsson, Hjálmar Hjálmarsson, Jón Atli Jónasson, Margrét Örnólfsdóttir, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann og Úlfur Eldjárn.
Eftirtaldir listamenn standa að leiksmiðjuverkefnum sem áður hafa hlotið styrk úr sjóðnum: Aðalbjörg Þóra Árnadóttir, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Ásgerður Guðrún Gunnarsdóttir, Brynja Björnsdóttir, Davíð Freyr Þórunnarson, Dóra Jóhannsdóttir, Eva Rún Snorradóttir, Friðgeir Einarsson, Friðrik Friðriksson, Gísli Galdur Þorgeirsson, Hlynur Páll Pálsson, Ilmur Stefánsdóttir, Jörundur Ragnarsson, Karl Ágúst Þorbergsson, Katrín Gunnarsdóttir, Kristján Ingimarsson, Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, Margrét Bjarnadóttir, Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Pálína Jónsdóttir, Ragnheiður Sigurðard. Bjarnarson, Rósa Hrund Kristjánsdóttir, Saga Sigurðardóttir, Sunna María Schram, Valur Freyr Einarsson, Vigdís Eva Guðmundsdóttir og Ylfa Ösp Áskelsdóttir.
Í stjórn Prologos sitja Bjarni Ármannsson, Kristbjörg Kjeld og Tinna Gunnlaugsdóttir. Fagráð skipuðu við þessa úthlutun Melkorka Tekla Ólafsdóttir, Pétur Gunnarsson og Stefán Jónsson.
Umsóknarfrestur vegna næstu úthlutunar úr Leikritunarsjóðnum Prologos til 11. janúar næstkomandi, en úthlutun fer fram í febrúar. Upplýsingar um sjóðinn og umsóknarferli er að finna á heimasíðu Þjóðleikhússins, leikhusid.is.
Nánari upplýsingar: prologos@leikhusid.is