Leikfélag Vestmannaeyja hefur hafið æfingar á stórsöngleiknum Grease í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, en félagið undirritaði samning við Nordiska ApS um sýningarétt á verkinu í nóvember síðastliðinn. Almennar æfingar hófust mánaðarmótin janúar/febrúar, en dansæfingar hófust fyrir áramót og ganga þær mjög vel.
Stór hópur kemur að sýningunni eða um 35 til 40 manns. Höfundar verksins eru Jim Jacobs og Warren Casey, en Veturliði Guðnason sá um þýðingu. Aðalhlutverk eru í höndum Emmu Bjarnadóttur sem leikur Sandy, Ævars Arnar Kristinssonar sem leikur Danny, Sunnu Guðlaugsdóttur sem leikur Rizzo og Zindra Freys Ragnarssonar sem leikur Kenickie. Stefnt er að því að frumsýna um páskana. Meðfylgjandi er mynd af hluta leikhópsins.