Hver er ekki forvitin um kvennlíkamann? Þann 18. apríl mun Þjóðleikhúsið frumsýna eldfjörugt og sprenghlægilegt verk,  Kvennafræðarann í leikstjórn Charlotte Böving í Kassanum. Höfundurinn, Kamilla Wargo Brekling, byggir leikritið á bókinni „Kvinde kend din krop“.  Bókin kom fyrst út í Dannmörku árið 1975 og vakti strax mikla athygli með hispurslausri umfjöllun um konur, líkama þeirra, frjósemi og kynlíf. Bókin þótti byltingarkennd og varð vopn í baráttunni við að efla sjálfsvitund og virðingu kvenna. Reglulega hefur bókin komið út í nýrri og uppfærðri útgáfu og byggir leikritið á öllum útgáfum hennar.

Leikritið var fyrst sett á svið fyrir tveimur árum í Danmörku og naut mikilla vinsælda frá frumsýningu.  Þetta er í fyrsta sinn sem Charlotte Böving leikstýrir í Þjóðleikhúsinu en hefur áður unnið fjölda verkefna í íslensku leikhúsi, bæði sem leikari og leikstjóri.

Í verkinu eru birtar svipmyndir af kunnulegum aðstæðum á skemmtilegan máta. Fjallað er um egglos, barneignir, breytingarskeiðið, kynóra og kærleika á hispurslausan og húmorískan hátt. Kvennafræðarinn er verk sem má einna helst líkja við veðrið á íslandi – það breytist oft og fyrirvaralaust. Þau Maríanna Clara Lúthersdóttir og Jóhann G. Jóhannsson leika saman. Bæði bregða þau sér í nokkur hlutverk þar sem þau leika ósköp venjulegar manneskjur, hitt kynið – eða jafnvel líffæri.