Gauragangur eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar verður frumsýnt á Stóra sviði Borgarleikhússins komandi föstudag 19. mars. Það er ekki auðvelt að vera snillingur, þeir sjá heiminn eins og hann er – gallaðan. Gauragangur er þroskasaga skemmtilegustu andhetju Íslandssögunnar. Rafmagnaður og rokkaður poppsöngleikur eftir Ólaf Hauk Símonarson með tónlist eftir Nýdönsk.

Verkið fjallar um töffarann og erkitýpuna Orm Óðinsson, fjölskyldu hans og vini. Þetta er þroskasaga ungs manns sem er að takast á við fjölskylduna, ástina og skólann. Verkið er byggt á samnefndri bók Ólafs Hauks sem þegar er orðin sígild í íslenskum bókmenntum. Vandamálin sem Ormur tekst á við eru hversdagleg glíma við lífið og það verkefni að verða fullorðinn. Hana sýnir Ólafur Haukur okkur í verkinu á sinn húmoríska og einstaka hátt.

Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri er hér að leikstýra sínu fyrsta verki á Stóra sviðinu og með honum er stór hópur leikara en alls taka þátt í sýningunni 22 leikarar ásamt hljómsveit og tæknifólki. Í tilefni uppsetningarinnar gefa 12 tónar og Borgarleikhúsið út geisladisk með tónlistinni úr sýningunni sem fáanleg er í öllum helstu tónlistarverslunum.

Ólafur Haukur Símonarson (1947) er eitt okkar ástsælasta leikskáld og verk hans hafa snert hjörtu þjóðarinnar með einstökum hætti. Gauragangur er unninn upp úr samnefndri skáldsögu, einni vinsælustu unglingasögu Íslands, sem þýdd hefur verið á þrjú tungumál. Sérstaða Ólafs Hauks felst í því hvernig hann fjallar um hversdagslíf samtímans og lýsir venjulegu fólki sem er að kljást við sjálft sig og umhverfið.  

Geisladiskurinn verður á sérstöku frumsýningartilboði í Borgarleikhúsinu til 31. mars, aðeins 1.750 kr.

{mos_fb_discuss:2}