Sviðslistaþing LSI í Tjarnarbíói, sunnudaginn 4. september kl 11.00 – haldið í tengslum við sviðslistahátíðina Lókal. Fyrirlesari er Åsa Edgren, stjórnandi Loco World. Í fyrirlestri sínum mun Åsa kynna fyrir íslenska sviðslistasamfélaginu sameiginlegt norrænt átak í Norður Ameríku sem ætlað er að auka sýnileika norræna sviðslista. Hún mun fjalla um verkefni umboðsskrifstofunnar Loco World frá árinu 2004, samstarf stofunnar við listamenn og greina frá því hvernig markviss uppbygging hefur skilað listafólki auknum tekjum og orðstír.

Hvernig verða draumar að veruleika? Af hverju er innri hvöt listamannsins forsenda árangurs? Hvers vegna skiptir tímastjórnun, skipulag og samningstækni máli þegar ætlunin er að ná árangri á alþjóðamörkuðum? Þessum spurningum og mörgum fleirum verður velt upp.

Leiklistarsambandið (LSI) fagnar komu Åsu og fókusi hennar á norrænar sviðslistir. LSI mun á næsta ári standa fyrir hátíð og þingi – svokölluðum Norrænum leiklistardögum – þar sem norræni höfundurinn verður í forgrunni. LSI er einnig með í undirbúningi, í samvinnu við stjórnvöld, stofnun Kynningarmiðstöðar íslenskra sviðslista. Mikil þörf er á slíkri miðstöð, m.a. til að efla tengsl og skapa sóknarfæri fyrir íslenskt sviðslistafólk á alþjóðlegum mörkuðum. Miðstöðin mun virka sem bakhjarl sviðslistafólks, jafnt stofnana, hópa sem þegar hafa getið sér gott orð á alþjóðavettvangi sem og þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Åsa Edgren er stjórnandi Loco World sem er með aðsetur í Stokkhólmi. Frá árinu 1997 hefur hún stýrt undirbúningi sýningarferða og uppfærslna fyrir fjölmarga hópa og listamenn líkt og Philippe Blanchard, Charlotte Engelkes,Gunilla Heilborn, Sirqus Alfon, Cullbergballettinn, Gautaborgarballettinn, Helsinki dansflokkinn, Dansleikhúsið á skáni og Borgarleikhúsið í Stokkhólmi, svo nokkrir séu taldir upp.
Åsa Edgren átti frumkvæð að og rekur The Fair project, þriðja árið í röð en í því felast 27 alþjóðlegir kynningarviðburðir fyrir sænska danshöfunda. Hún hefur verið drifkraftur samstarfs Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Danmerkur í kynningu á sviðslistum. Það samstarf hófst formlega á markaðnum Cinars í Montreal í Kandada árið 2010 og heldur nú áfram í gegnum verkefnið Norðurlöndin á svið í New York árið 2012. Þetta verkefni er hugsað sem upphaf margvíslegs samstarfs þessara fjögra þjóða í tengslum norrænar sviðslistahátíðir sem fyrirhugaðar eru í Kennedy Centre í Washington og Joyce leikhúsinu í New York í mars 2013. Åsa Edgren er eftirsóttur fyrirlesari um menningarstjórnun og alþjóðlegt samstarf í sviðslistum.

Loco World er framleiðandi sviðsverka, umboðsskrifstofa og ráðgjafamiðstöð. Fyrirtækið framleiðir, skipuleggur og dreifir sænskum sviðsverkum erlendis, tekur að sér listræna viðburði fyrir stofnanir og sjálfstæða listamenn, veitir ráð og á frumkvæði að sænskum og alþjóðlegum verkefnum.