ImageHeimspeki- og menningarfélag Menntaskólans á Akureyri í samstarfi við Leikklúbbinn Sögu standa fyrir uppsetningu á leikritinu Fyrir luktum dyrum eftir Jean-Paul Sartre. Verkið er sett upp eftir þýðingu Ásgeirs Berg Matthíassonar, nema á fjórða ári við Menntaskólann. Einhverjir kunna að þekkja hann sem fyrirliða Gettu Betur liðs MA. Skúli Gautason leikari og leikstjóri með meiru leikstýrir.

Leikendur eru fjórir, þau Ævar Þór Benediktsson, Lilja Guðmundsdóttir, Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Hafliði Arnar Hafliðason.  Þau eru öll fyrrverandi MA-ingar, nema Hafliði sem lýkur stúdentsprófi frá MA nú í vor.

Verkið fjallar í stórum dráttum um þrjár manneskjur sem deyja og dæmast til helvítisvistar.  Þegar niður er komið komast þau að raun um að helvíti er hvorki eldur, brennisteinn né líkamlegar kvalir heldur sjá þau um að kvelja hvort annað í sjálfsköpuðu víti.

Verkið var frumsýnt á Litla-Hrauni þann 12.maí síðastliðinn og daginn eftir norðan heiða í Deiglunni í Listagilinu á Akureyri.  Verkið er eitt af þekktari verkum bókmenntasögu 20. aldarinnar og heitir á frummálinu Huis clos eða No Exit á ensku.

Frumsýnt er á Litla-Hrauni því við trúum því að heimspeki Sartre geti hjálpað öllum og ekki síst þeim sem þegar hafa verið dæmdir af samfélaginu. Vel mögulegt er að vistmenn geti fundið einhverja samsvörum með verkinu og sínu eigin lífi. Að sjálfsögðu er þetta gert af fullri virðingu við vistmenn og þeirra aðstæður.

Sýningartímar eru sem hér segir:

Þri 16.maí kl. 20:30, í Deiglunni
Mið 17.maí kl. 20:30, í Deiglunni
Sun 20.maí kl. 20:30, í Deiglunni
Mán 21.maí kl. 20:30, í Deiglunni

Einnig má benda á heimasíðu verksins sem má finna á fyrirluktumdyrum.wordpress.com