Laugardaginn 19. febrúar klukkan 20:00 frumsýnir Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit hið stórskemmtilega og sígilda verk, Góði Dátinn Svejk, í leikgerð Írans Colin Teevan. Munu sýningar standa fram á vor. Stór hópur leikara og annara góðhjartaðra koma að uppsetningunni eða um fimmtíu manns, er síðast var talið. Leikstjóri er Þór Tulinus.
Þetta er bráðfjörug sýning um ævintýri Góða Dátans Svejk í Stríðinu mikla, þar sem hann dregur dár af (sjálfsköpuðum) raunum okkar mannana með æðruleysi sínu og auðmýkt. Andlit hans ljómar af kærleika og ást til refsandi yfirboðarana sem úrskurða hann „löggiltan hálfbjána“. Hann er „fullkomlega sáttur“ hvað sem á bjátar og þylur upp úr sér skondnar reynslusögur við hvert tækifæri sem rugla þann í ríminu sem hlýðir á. Þeir sem vilja refsa honum, falla á eigin bragði. Hann er hinn saklausi trúður í Sirkusi Fáránleikans.
Leikhópurinn skapar járnbrautalestir, strætisvagna, almenningsgarða, hringekjur og allt það sem þjóna skal sögunni undir dyggri stjórn Sirkusstjórans. Andi Chaplin, Buster Keatons og þöglu myndanna svífur yfir vötnum. Óhætt er að lofa góðri kvöldstund í Freyvangi á vordögum.
Miðaverð á sýninguna er 2.900 krónur. Frekari upplýsingar og miðapantanir eru á vef Freyvangsleikhússins: www.freyvangur.net
{mos_fb_discuss:2}