Hugleikur frumsýndi sunnudaginn 6. mars, leikritið „Patataz“ eftir Björn M. Sigurjónsson í Stúdíó 4, nýju húsnæði við Vatnagörðum. Félagið hefur undanfarin ár sýnt flestar sinna uppsetninga í Tjarnarbíói sem er hefðbundið leikhús og það eru því eflaust nokkur viðbrigði að koma í „svartan kassa“ eins og þann sem er í Vatnagörðum. Ýmislegt er líka gert til að brjóta upp hið hefbundna samband áhorfenda og leikara. Áhorfendum er stillt upp í einskonar V sem hálfumlykur leikmyndina og persónurnar fara út og inn á milli armanna þannig að áhorfendur finna fyrir meiri nálægð en vaninn er á hefðbundnu sviði. Það hafði þau áhrif að hluta áhorfenda hefur eflaust fundist hann vera inni í stofu hjá fjölskyldunni. Leikmyndin er stílhrein og „steríl“, yfirborðið slétt og fellt sem tónar vel við samskipti fjölskyldumeðlima. Stúdíó 4 er spennandi húsnæði til leiksýninga og umtalsvert hentugra en t.d. Tjarnabíó að einu atriði undanskildu. Hljómburður er afar bágborinn og hafði það á köflum þau áhrif að heilu og hálfu setningarnar féllu niður, sérstaklega þegar mikið gekk á í sýningunni sem ósjaldan gerðist. Leikstjóri hefði gjarnan mátt leggja meiri vinnu í að bæta þetta atriði. Það er þó ekki mikið annað sem hægt er að setja út á hans vinnu því Patataz er þegar á allt er litið, afar vel sviðsett leiksýning.
Patataz Fjölmenning er að verða mál málanna (les: í tísku) og „Patataz“ tæpir á ýmsum spurningum er það fyrirbæri varðar. Sýningin gefur okkur innsýn í líf íslenskrar fjölskyldu og viðbrögð hennar þegar dóttirin kemur með Marokkóskan (og múslimskan) kærasta sinn í heimsókn. Heimsóknin vekur upp ýmsar „fjölmenningarlegar“ spurningar og neyðir fjölskylduna til að opinbera fordóma sína en einnig að draga upp á yfirborðið ýmislegt úr fortíðinni sem hún hefði frekar viljað leyna. Sú dramatíska spenna og framvinda sem höfundur hyggst búa til nær þó ekki því flugi sem væntanlega hefur verið að stefnt. Því miður vantar töluvert á undirbyggingu persóna og þá sérstaklega foreldranna sem veldur því að orð þeirra og athafnir koma úr hálfgerðu tómarúmi. Persónurnar virka tvívíðar og ómögulegt að sjá hvað það er sem leiðir þær áfram. Áhorfendur fá þar af leiðandi lítinn sem engan botn í orð þeirra og athafnir. Ekki næst nægjanleg dýpt í persónusköpuninni og sýningin nær því aldrei að rista mjög djúpt. Þetta kann að tengjast því að það er eins og leikritið (sýningin) viti ekki alveg hvert það eigi að stefna. Ekki er ljóst hvort verið sé að gefa áhorfendum innsýn í líf íslenskrar vandamálafjölskyldu eða hvort verið sé að nota „mikrókosmós“ fjölskyldunnar til að bregða ljósi á hinar ýmsu hliðar fjölmenningarinnar og árekstra ólíkra menningarheima. Kannski er það vegna þessa óskýrleika sem sýningin verður ekki sterkari en raun ber vitni. Hvorugu viðfangsefninu er sinnt sem skyldi.
Ekki er að ósennilegt að þeir sem láta sig fjölmenningarleg vandamál miklu varða, muni sjá ýmislegt spennandi í sýningunni en undirrritaður verður að játa á sig þá sök að teljast ekki í þeim hópi. Það ætti þó ekki að skipta neinu í þessu samhengi enda á gildi leiksýninga ekki að miðast við pólítíska sýn eða skoðanir þeirra sem sviðsetja þær né þeirra sem á horfa. Það er fullkomlega hægt njóta leiksýningar þó maður sé ekki sammála þeim skoðunum eða þeirri lífssýn sem þar kemur fram. Það sem máli skiptir er hvernig það er gert og hér skortir of margt á. Upptalning staðreynda* um Íslam og sviðsetning óumdeildra fordóma Vesturlandabúa gagnvart öðrum menningarheimum kann að finna samhljóm í hjörtum áhorfenda en meira þarf til ef búa á til spennandi leikhúsverk. Það eru í sjálfu sér litlar fréttir að Vesturlandabúar og Íslendingar þar með taldir, eru yfirleitt fáfróðir um menningu í ríkjum Íslam. Það er heldur ekkert nýtt að margir og jafnvel flestir þeirra eru fordómafullir gagnvart útlendingum og hættir til að alhæfa um heildina útfrá einstökum tilvikum og atburðum.
Þrátt fyrir það sem á undan er sagt um að grunnar persónur verksins risti ekki mjög djúpt er ekki annað hægt en að hrósa leikurum fyrir sína frammistöðu. Allir standa sig með miklum ágætum og fara í raun eins langt með sínar persónur og hægt er. Þau Rúnar Lund og Júlía Hannam áttu bæði nokkur áhrifarík augnablik í hlutverkum sínum. Sigurður H. Pálsson var trúverðugur í hlutverki Youssuofs þó talnaárátta hans hafi komið spánskt fyrir sjónir og var ekki annað séð en að þar væri verið að kaupa ódýran hlátur. Lilja Nótt Þórarinsdóttir sýndi fínan leik í hlutverki dótturinnar en var stundum á mörkunum í tilfinngasveiflunum í lokin. Þar hefði betri grunnur frá hendi höfundar getað komið til hjálpar. Ekki verður svo skilið við leikinn að ekki sé sérstaklega minnst á stórgóða frammistöðu Guðmundar Erlingssonar í hlutverki sonarins Baldurs. Hann sýndi þar einlægan og trúverðugan leik sem vakti hlátur og samkennd áhorfenda í hæfilegum hlutföllum. Hann sýndi fram á það á áhrifaríkan hátt að minna er oft meira.
„Patataz“ er í sumum skilningi tímamótaverk fyrir Hugleik. Auk þess að sýna í splunkunýju húsnæði setur félagið hér í fyrsta sinn á svið hreinræktað nútímaverk í fullri lengd. Félagið hefur, meðvitað eða ómeðvitað, verið að færa sig úr hefbundnum Hugleikskum uppfærslum, hvort sem um ræðir umfjöllunarefni eða framsetningu. Á því eru eflaust skiptar skoðanir en sá er hér ritar fagnar því. Hér er einnig enn einn höfundurinn kynntur til sögunnar og þrátt fyrir allt grunar undirritaðan að sá sé kominn til að vera. Þó Patataz virki ekki sem skyldi að því leyti sem áður er upp talið er þó víða í verkinu að finna lipurlega skrifaðar senur og samtöl. Undirritaður minnist þess einnig að hafa séð lúmskt skemmtilega skrifaðan leikþátt eftir Björn á stuttverkahátíðinni Margt smátt í Borgarleikhúsinu síðastliðið haust. Björn ku vera afkastamikill með eindæmum og ekki að efa að hann á eftir að skrifa fleiri og það sem meira er vert, betri leikverk en „Patataz“.
Hörður Sigurðarson
* Það er jafn marklaust að halda því fram að Islam sé svona eða hinsvegin eins og að segja að kristin trú sé svona eða hinsegin. Skilningur múslima á Íslam spannar jafnvíðfeðmt trúarinnar litróf og langt er á milli öfgamannsins í biblíubelti Bandaríkjanna og hálfvelgjukristni meðalþjóðkirkjumanns á Íslandi.