Bót og betrun
Leikfélag Kópavogs
Leikstjóri: Hörður Sigurðarson

botogbetrun3Leikfélag Kópavogs sýnir farsa þetta vorið. Það er verk Michael Cooney, Cash on Delivery sem birtist hér í þýðingu Harðar Sigurðarsonar sem Bót og betrun. Verkið hefur hlotið góðar viðtökur beggja vegna Atlantsála. Hörður Sigurðarson leikstýrir einnig. Helsti kostur þessa leikverks, kannski umfram önnur sömu tegundar, er að það nær aldrei að verða fyrirsjáanlegt. Sem er afrek út af fyrir sig. Plottið tekur allskonar beygjur og misskilningur og lygasögur eru endalaust að þróast í brjálaðri áttir í gegnum allt verkið.

Strax á fyrstu mínútum verksins kemur í ljós að eitthvað misjafnt er á seyði og meiri misskilningur og lygar bætast ofan á misskilning og lygar verkið í gegn. Það er bókstaflega aldrei dauður punktur á sviðinu. Enda lá við að umfjallari væri farinn að hafa áhyggjur af Héðni Sveinbjörnssyni, í hlutverki Erics Swan undir það síðasta, þegar persónan var búin að vera óhemjulengi á barmi taugaáfalls. Héðinn leysti annars þetta erfiða hlutverk fantavel. Örvænting hans og klaufagangur blandaðist vel hárnákvæmum tímasetningum á þeim mikla og flókna bissness sem þurfti að vera á sviðinu til þess að allt gengi upp.

botogbetrun2Leikurinn í sýningunni var allur þéttur og trúverðugur. Auðvitað var það misskilningurinn og vitleysan sem keyrði verkið áfram en allir leikarar réðu vel við hraðan takt sýningarinnar og það er ekki lítið afrek fyrir 10 manna misreyndan leikhóp. Víðir Örn Jóakimsson var fínn í hlutverki Normans McDonald sem lendir óvart í því að verða meðsekur í ruglinu og Erna Björk Hallbera Einarsdóttir sýndi góða takta sem Linda Swan sem er allan tímann að reyna að komast að því hvað er á seyði. Reynsluboltarnir Bjarni Guðmarsson og Örn Alexandersson komu vel út í smærri og kómískari hlutverkum. Í ljós kom að Örn er líklega úr gúmmíi og Bjarni hefur gríðarlega færni í að setjast niður. Teymi búrókrata og aðrar aukapersónur stóðu sig líka með sóma, sérstaklega var hinn ungi Bjarni Magnús Erlendsson skemmtilegur í hlutverki hr. Jenkins.

Verkið er mjög beinþýtt en það gerir talmálið stirt á köflum. Þýðanda tekst þó vel upp með ýmsa orðaleiki og misskilning sem liggja í tungumálinu. Öll umferðarstjórnun, sem er veigamikill þáttur í þessum „fimmhurða farsa“, er líka góð. Þar spila saman snyrtilega hönnuð leikmynd og vel útfærðar sviðshreyfingar. Útlit sýningarinnar er allt mjög stælalaust. Engu virðist vera ofaukið í leikmunum eða leikmynd og búningar eru hófstilltir og vel passandi. Ef eitthvað mætti út á þá setja væri það að gaman hefði verið að sjá hr. McDonald í kynþokkafyllri kjól…

Það þarf fantalið til að gera góðan farsa og satt að segja er undirrituð ekkert sérstakur aðdáandi þess leikhúsforms. En ég hló allan tímann.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir

{mos_fb_discuss:2}