Aðstandendur Brúðuheima, þau Bernd Ogrodnik og Hildur M. Jónsdóttir, eru nýkomin heim eftir fjögurra mánaða sýningarferð með sýningu sína Umbreytingu um Suður-Asíu og Mið-Austurlönd. Til að fagna heimkomunni bjóða þau nokkrar sýningar á litríkri sýningu sinni um hinn skemmtilega snáða Einar Áskel á Brúðuloftinu, sem er byggð á sögum Gunillu Bergström, áður en þau halda aftur af landi brott til að sýna Pétur og úlfinn fyrir eyjaskeggja í Karíbahafinu.

Þau lönd sem heimsótt voru í ferðinni voru Tailand, Malasía, Indonesía, Egyptaland og Íran. Þetta var röð ógleymanlegra ævintýra og upplifanna og er mikil tilhlökkun að halda áfram því góða samstarfi sem skapaðist við listamenn á hverjum stað.

Bernd og Hildur sýndu meðal annars á stærstu brúðulistahátíð í heimi sem var haldin þetta árið í Bangkok og voru þátttökuþjóðirnar um 80 talsins, sýningarnar um 140 talsins og unnu Brúðuheimar til aðal listrænu verðlauna hátíðarinnar.

Bernd og Hildur hlakka til að sjá ykkur á Brúðuloftinu í mars – uppselt er á sýningarnar næsta laugardag.

Næstu sýningar eru laugardagana 7. og 14. mars kl. 14.00 og 16.00