Jólasveinar einn og …… fjórtán?
Hrekkjalómarnir okkar ljúfu, synir Grýlu og Leppalúða, hafa löngum verið innblástur ýmsum höfundum, bæði til sagna, ljóða og leikrits.  Um þessar mundir sýnir Freyvangsleikhúsið barnasýninguna 14. jólasveinninn, sem er leikgerð unnin upp úr samnefndri bók eftir Ásgeir Ólafsson Lie, en bókin kom út fyrir sex árum síðan.
Það er alltaf fagnaðarefni þegar ný verk rata á fjalirnar og hefur Freyvangsleikhúsið verið ákaflega ötult í þeirri frumsköpun, sem og að leyfa félagsfólki að spreyta sig á listrænni stjórn sem einnig á við hér, en formaðurinn Jóhanna Ingólfsdóttir leikstýrir og  lagar söguna að leikhúsinu.

Í stuttu máli þá fjallar sagan (augljóslega) um fjórtánda jólasveininn og þá staðreynd að hann er víst til og heitir Ólátabelgur.
Sessunautur minn í leikhúsinu var sjö ára dóttir mín og þar sem við vorum mætt tímanlega nýttist okkur ákaflega vel þessi stórgóða leikskrá sem fylgir sýningunni. Þar er margt til afþreyingar og mikil hugsun lögð í hana – alveg til fyrirmyndar.  Svo dunduðum við okkur að skoða það sem sást af ágætri leikmynd sýningarinnar, sem þjónaði sínu hlutverki alveg hreint prýðilega.  Til hægri var einhvers konar veggjakrot sem við vorum spennt fyrir og giskuðum á ýmislegt, allt frá steinaldarpári yfir í smíðakofa Emils.  En fljótlega var hulunni svipt af því – sýningin hófst.
Jón Friðrik Benónýsson var sögumaður og leiddi okkur inn í heiminn með sinni þrautþjálfuðu rödd.    Án þess að vilja uppljóstra of miklu um söguna, þá er horfið aftur til þess að jólasveinar fara fyrst til byggða og hvernig það kom til að þeir fóru að gefa skógjafir.  Reyndar var svolítið óskýr tímalínan milli þeirrar ákvörðunar og fyrstu ferðar, varð undirritaður ögn ringlaður þar sannast sagna.  Sömuleiðis mætti horfa til þess að þétta tempó og skýra og stækka viðbrögð hér og hvar í sýningunni.

En! Ef að þessir þrettán sem við þekkjum eiga að fara að gefa í skóinn, hvað þá um fjórtánda jólasveininn? Hvert er hans hlutverk?   Því öll leitumst við eftir því að fá að blómstra og passa inn í þessa veröld á okkar forsendum.  Einn verulega dyggan stuðningsmann á Ólátabelgur og besta vin, sem er jólakötturinn, ljómandi unnið sambandið þar.
Það má segja að boðskapur verksins sé einmitt sá og að  við þurfum að leita eftir þeim kostum sem við og samferðafólk okkar hafa til að bera, en ekki göllunum.  Því enginn getur allt, en allir geta jú eitthvað.  Og Ólátabelgur getur svo sannarlega eitthvað, svo ekki sé meira sagt.

Búningarnir voru ljómandi og yfirbragð allt, þó vissulega hefði verið gaman að fá að sjá meira framan í suma sveinkana. Gaman var að sjá hvað hópurinn spannaði breitt aldursbil og  hópsenur í hellinum voru líflegar, hvort sem þær voru í forgrunni eða bakgrunni og hæfilegur rígur var milli sveinka til að gleðja okkur.  Grýla talaði með þjósti og Leppalúði kitlaði í okkur gleðitaugina og  Ólátabelgur söng og lék af sprúðlandi gleði og fjöri.  

Söngur var allur til fyrirmyndar og ljómandi textar Helga Þórssonar skildust mjög vel og það má kalla sjaldgæft.  Sömuleiðis gerði hljómsveitin góðri tónlist Eiríks Bóassonar prýðileg skil.   Mikill fengur að þessum þaulvönu mönnum og undirritaður stóð sig að því á leið út í bíl að söngla lokalagið.
Og kannski mætti draga þessi skrif saman í það sem sjö ára dóttir mín sagði þegar hún vatt sér inn úr dyrunum hjá vinkonu sinni eftir sýningu “ég var að koma af skemmtilegri leiksýningu”!
Segir það ekki allt sem segja þarf? 

Oddur Bjarni Þorkelsson