Austurbær er að hefja sýningar á leikritinu Danny and the deep blue sea eftir John Patrick Shanley í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar. Verkið verður sýnt í nýuppgerðu “black-box” rými á efri hæðinni, í Silfurtunglinu. Brit Pop leikrit, beint frá Bretlandi, beint í æð. Leikendur eru bresku hjónin Nicolette Morrison og Matthew Hugget. Leikið er á ensku.
Danny var sýnt í Etcetera Theatre í Camden í London við feikigóðar undirtektir.
Þetta er saga Danny og Robertu, tveggja einmana sála sem hittast á bar og hefja samræður. Saga fólks sem varð utanveltu í samfélaginu, “lágstéttar pakk”, eða “white trash”, Þetta er saga þriggja kynslóða sem þurfa að lifa við bágar aðstæður og fjallar leikritið um börn, uppeldi, drykkju, mistnotkun og ást. Þetta er ofbeldisfull, hröð og hættuleg ástarsaga.. Þetta er saga fólks sem mann grunar ekki að geti elskað en elskar svo heitt vegna þess að það hefur farið á mis við foreldraást, væntumþykju og hlýju í lífinu.
Heimurinn sem verkið gerist í er sá sami og leikararnir ólust upp í, þetta er heimur lágstéttarinnar. Leikritið fæðist mikið með leikurunum sjálfum, þeim Nicolette og Matthew en þau urðu ástfangin og giftu sig innan mánaðar frá fyrstu kynnum og samband þeirra er að mörgu leiti svipað og í Danny and the deep blue sea.
Jón Gunnar var að útskrifast sem leikstjóri frá Drama Centre London þegar Nicolette bað hann um að leikstýra sér og eiginmanni sínum í Danny. Draumurinn varð síðan að veruleika í mars 2006.
En ævintýrið er ekki á enda því að hjónin koma til landsins 26. október og frumsýna verkið í Austurbæ þann 2. nóvember næstkomandi.
Það sem áhorfendur sögðu um Danny í London:
Mjög frumleg sýning. Nálægð við leikara nýnæmi. Færni leikara einstaklega dásamleg. Óvænt framvinda sögu. Leikhúsið varð allt í einu mjög skýr spegill samfélagsins. Djúp persónusköpun. Lítið rými og tenging við leikara mikil. Þegar ég gekk út fannst mér Nicolette og Matthew einhvern veginn vera vinir mínir – á einhvern undarlegan hátt.
Björg Magnúsdóttir, Au-pair í London
Mér fannst flott hvernig var hægt ad gera sýninguna tæknilega med svo lítid af búnaði og munum. Hún var mjög líkamlega útfærð og það gerði hana því mjög skemmtilega fyrir bædi eyru og augu. Mér fannst Nicolette alger snillingur inn á sviði og utan þess.
Hannes Egilsson, dansnemi í London