Freyvangsleikhúsið frumsýnir barna- og fjölskylduleikritið Klaufar og kóngsdætur laugardaginn 24. október kl. 20.00.

Um er að ræða leikrit eftir þrjá Ljóta hálfvita, Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason. Ármann leikstýrir einnig verkinu. Verkið er leikgerð af sex ævintýrum H.C. Andersen; Eldfærunum, Næturgalanum, Hans Klaufa, Svínahirðinum, Förunautnum og Litlu stúlkunni með eldspýturnar – auk þess sem Ljóti andarunginn kemur nokkuð við sögu, ráfar milli ævintýra og hittir fyrir skapara sinn og hliðstæðu, ævintýraskáldið sjálft.

Verkið hlaut Grímuna sem barnaleikrit ársins 2005 þegar það var sýnt í Þjóðleikhúsinu.

Æfingar hafa staðið yfir síðan í lok ágúst og miðar vinnunni vel, hópurinn er góð blanda af fólki á öllum aldri, reynsluboltum sem og minna vönum. Segja má með sanni að verkið sé fjölskylduleikrit því ásamt boðskapnum til barna á öllum aldri er einnig lúmskur húmor fyrir eldri kynslóðirnar.

Frumsýning er á laugardaginn og er uppselt. Sýnt verður á laugardögum og sunnudögum kl. 14.

Nánari upplýsingar/miðasala í síma 857-5598 og freyvangur.net

Klaufar2