Margverðlaunuð sýning Vesturports, Brim eftir Jón Atla Jónasson, verður sýnd í örfá skipti í nóvember á Litla sviði Þjóðleikhússins. Þeir sem ekki hafa séð þessa mögnuðu sýningu ættu að tryggja sér sæti núna! Miðasala er hafin á netinu.
Brim gerist á jaðri landgrunns Íslands og fjallar um lífið um borð í fiskiskipi af smærri gerðinni. Gleði, draumar og söngvar áhafnarinnar renna saman við brælu hafsins og rótleysi tilverunnar í ljúfsárum mannlegum gleðileik.
Jón Atli Jónasson sendi frá sér smásagnasafnið Brotinn takt árið 2001. Hann skrifaði leikritið Draugalest sem Borgarleikhúsið setti upp á þessu leikári og Brim fyrir Vesturport, sem sýnt hefur verið undanfarið víða um land. Jón Atli skrifaði Rambó 7 fyrir Leiksmiðju Þjóðleikhússins og leikhúsið styrkti hann til farar á leikritunarnámskeið hjá hinu virta leikhúsi Royal Court Theatre í London sumarið 2003, þar sem ung leikskáld víðsvegar að úr heiminum unnu að verkum sínum í samvinnu við dramatúrga og leikstjóra leikhússins. Rambó 7 var svo frumsýnt í Þjóðleikhúsinu vorið 2005. Jón Atli hlaut Grímuna – Íslensku leiklistarverðlaunin 2004 fyrir Brim.
Umgjörð verksins og leikmynd er unnin út frá þeirri grunnhugmynd að persónur verksins búi við yfirþyrmandi nálægð hvor við aðra, bæði í andlegum og efnislegum skilningi. Þrengslin sem ríkja um borð í hinu ónefnda línuskipi sem veltur um lífsins ólgusjó eru að sliga allt og alla. Vettvangur leiksins er þröngt stálbúr, messi og káeta neðanþilja. Gólfið hangir í vírum, ótengt jörðinni og riðar því til og frá við minnstu hreyfingu áhafnarmeðlima, allt er á ferð og flugi.
Leikendur eru Björn Hlynur Haraldssson, Gísli Örn Garðarsson, Ingvar E. Sigurðsson, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Egill Egilsson og Víkingur Kristjánsson.
Hljóð, ljós og leikmynd eru Björn Kristjánsson, Börkur Jónsson, Hlynur Kristjánsson og Sigurjón Brink. Leikstjóri er Hafliði Arngrímsson.