Jónasardagskrá á Ísafirði
Kómedíuleikhúsið, í samstarfi við Þröst Jóhannesson tónlistarmann, frumsýnir ljóðaleikinn Ég bið að heilsa miðvikudaginn 7. nóvember á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði. Leikurinn er settur upp í tilefni af 200 ára fæðingarafmælis Jónasar Hallgrímssonar þann 16. nóvember nk.
Jónas, eða Listaskáldið góða eins og hann er nefndur, er eitt af ástsælustu skáldum þjóðarinnar. Í þessum leik verða flutt ljóð skáldsins í tali og tónum. Meðal ljóða í leiknum eru Móðurást, Gunnarshólmi, Vísur Íslendinga, Ferðalok og síðast en ekki síst Ég bið að heilsa.
Leikarinn Elfar Logi Hannesson flytur ljóðin í leik og tali og Þröstur Jóhannesson flytur frumsamin lög við ljóð skáldsins. Frumsýning er eins og áður segir miðvikudaginn 7. nóvember á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði og hefst kl. 20.00.
Boðið verður uppá tvenns konar miðaverð; mat og leiksýningu á 2.900 krónur og bara miði á sýninguna sem kostar aðeins 1.500 krónur.
Miðapantanir eru í síma 456-3360.
Önnur sýning á ljóðaleiknum Ég bið að heilsa er viku síðar, eða miðvikudaginn 14. nóvember kl. 20.00.