Alliance française, Borgarleikhúsið og Vetrarhátíð í Reykjavík bjóða landsmönnum upp á japansk- franskan nýsirkus dagana 6. til 9. febrúar, en þá kemur sýningahópurinn Oki Haiku hingað til lands með gullfallega og stórglæsilega sýningu sem ber yfirskriftina Beinagrindin.
 
Þetta er heillandi sýning fyrir alla aldurshópa, í senn sirkus, tónlist, dans- og ljósasýning. Japanski listamaðurinn Keisuke Kanaí leikur þar á einstaklega frumlegan og skemmtilegan hátt með samspil ljóss og skugga. Tónlistarmaðurinn Rui Owada leikur lifandi tónlist á sýningunni. Leikstjóri er Sébastien Lalanne.
 
Sýningarhópurinn Oki Haiku hefur áður komið hingað til lands, komu og sýndu verkið Hreyfa ekki hreyfa í Borgarleikhúsinu 2004, en sú sýning var sýnd hundrað og sextíu sinnum víðsvegar um heiminn.
 
Beinagrindin verður sýnd tvisvar á Nýja sviði Borgarleikhússins, kl. 20:00 dagana 6. og 8. febrúar . Auk þess tekur nýsirkusinn þátt í opnunaratriði Vetrarhátíðar fimmtudagskvöldið 7. febrúar og verður með sirkussmiðju fyrir börn og unglinga á Heimsdeginum, laugardaginn 9. febrúar frá kl. 13:00 -16:00.

Miðaverð er 3100 krónur og miðasala er hafin hjá Borgarleikhúsinu í síma 568 8000 eða á borgarleikhus.is

{mos_fb_discuss:2}