Hvers vegna hlær fólk á leikriti sem heitir Vígaguðinn? er yfirskrift dagskrár sem Þjóðleikhúsið mun bjóða upp á á Smíðaverkstæðinu á Vetrarhátíð í Reykjavík þann 7. febrúar nk. Þar verður fjallað um frönsku skáldkonuna Yasminu Reza, eitt vinsælasta leikskáld samtímans, en leikrit hennar Vígaguðinn er sýnt í Þjóðleikhúsinu um þessar mundir. Boðið verður upp á létta og notalega stemmningu á Smíðaverkstæðinu en þar geta gestir einnig notið léttra veitinga.

Verk Yasminu Reza hafa á undanförnum árum verið leikin út um allan heim, en frægasta leikrit hennar er Listaverkið sem sló í gegn á Íslandi í uppsetningu Þjóðleikhússins árið 1997. Yasmina Reza hefur fengið Laurence Olivier-verðlaunin í Bretlandi, Tony-verðlaunin í Bandaríkjunum og oftar en einu sinni Molière-verðlaunin í Frakklandi. Hún er þekkt fyrir að skrifa óvægin gamanleikrit, bráðfyndin verk þar sem hún hlífir engum. Verk hennar afhjúpa jafnframt margt í samtímanum og í samskiptum fólks. Vígaguðinn er nýjasta leikrit Yasminu Reza, en þar fjallar hún meðal annars með sínum hárbeitta húmor um mörkin á milli þess siðmenntaða og villimannslega í manninum.

Melkorka Tekla Ólafsdóttir, leikstjóri Vígaguðsins, mun fjalla um leikrit Yasminu Reza, og tveir af leikurunum úr sýningunni, þau Baldur Trausti Hreinsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir, munu leiklesa brot úr nokkrum af þekktustu leikritum skáldsins.

Dagskráin hefst kl. 21 og tekur tæpa klukkustund, aðgangur er ókeypis og öllum opinn. Við bendum ennfremur á að Þjóðleikhúsið býður upp á fjölbreytta dagskrá í tilefni af Vetrarhátíð, t.d. boðssýningar og opið hús – sjá nánar á www.leikhusid.is

{mos_fb_discuss:2}