Leiksýningar ársins
Jæja, nú er vetur úr bæ (sjöníuþrettán!), frumsýningum allt að því lokið að sinni og tími til að blása úr nös og líta yfir farinn veg. Einhvernveginn er mér orðið tamt að hugsa í listaformi og því ákvað ég að setja saman einn slíkan um þær sýningar sem orkuðu sterkast á mig af þeim sem ég sá í vetur. Hafa ber í huga að auðvitað sá ég ekki nándar nærri allar sýningar sem frumsýndar voru á leikárinu. Eins var ég þátttakandi í tveimur, sem ég held að ekki sé ofsagt að hefðu báðar ratað inn á listann hefði ég setið í salnum en ekki húkt baksviðs eða uppi á priki að freta í fagott og berja xylófóna. Allavega læt ég listann vaða og hvet um leið aðra til að fylgja fordæminu og gera á sinn hátt upp leikárið eins og það horfir við viðkomandi. Sýningunum er raðað í tímaröð eftir því hvenær ég sá þær. Leikfélag Kópavogs: Hinn eini sanni Ég hef séð þessa sakamálaparódíu Toms Stoppards nokkrum sinnum og aldrei séð hana virka fyrr en í Kópavoginum í haust, þó ég hlægi enn upphátt þegar ég les hana, sem ég geri reglulega. Allt veltur á að reyna ekki að búa til "fynd", heldur lifa sig inn í klisjurnar af alefli. Það var gert hér, á öllum sviðum, í leikmynd, gerfum, búningum, leikmunum og síðast en ekki síst í...
Sjá meira


