Í haust birti ég lítinn lista, sem má lesa hér, yfir viðburði sem ég hlakkaði til á leikárinu sem í hönd fór. Um miðjan vetur fór ég yfir fjögur tilhlökkunarefnanna og sagði kost og löst á afrakstrinum. Þá úttekt má lesa hér. Nú er leikárinu að ljúka og tími til kominn að kveða upp úr um afganginn.

Nýja sviðið í Borgarleikhúsinu
Óhætt er að segja að tilhlökkunin með veldi Benedikts Erlingssonar á nýja sviðinu hafi breyst í einbera ánægju. Eftir stórskemmtilega Godot-sýningu haustsins, þar sem nefndur Benedikt fór með annað aðalhlutverkanna,  tóku við tvö verkefni undir leikstjórn hans. Myndaður var leikhópur sem vann að báðum sýningunum og það er skemmst frá því að segja að bæði  Fyrst er að fæðast og And Björk, of course… verða að teljast til hápunktana í leikhúslífi vetrarins. Hér fóru saman spennandi verk, samhentur leikhópur og áræðin og frumleg listræn forysta. Vonandi verður framhald á þessu í haust. Bravó Benni!
 
Veislan
Sýningin sú hefur svo sannarlega verið umtöluð, bæði fyrir sakir áhrifamáttar og annars, en listakskáldinu hefur illu heilli ekki tekist að krækja sér í miða.
 
Óvæntir bólfélagar
Það virðist ljóst að uppfærsla Hlínar Agnarsdóttur á Viktoríu og Georg frestast til hausts eins og títt er um sýningar á minni sviðum Þjóðleikhússins. Boðorðin 9 fóru hinsvegar á svið Í Borgarleikhúsinu. Sviðsetningin var flott, en heldur þótti mér verkið í lakari kantinum í höfundaverki Ólafs, og bætti engu við lýsingu hans á ungum nútímaíslendingnum í snilldarverkinu Vitleysingunum.

Strompleikurinn
Engin tvímæli voru tekin af um leikritunarhæfileika Laxness í þessari mislukkuðu sýningu. Einhver hefði átt að benda leikstjóranum á að absúrdleikrit sækja áhrifamátt sinn í núninginn milli raunsæis og fáránleika, og ef raunveruleikinn er látinn lönd og leið svífa verkin burt eins og gasblaðra á sautjánda júní, og hverjum er ekki sama um þær? Já og einhver hefði átt að benda snillingnum sem hannaði leikmyndina á að lágreistir braggar úr gegnsæju plasti heita á íslensku "gróðurhús" og hafa ekkert með eftirstríðsárin að gera.

Þorvaldur Þorsteinsson
Mér tókst reyndar ekki að skoða öll verkin sem sprautuðust út úr Þorvaldi í vetur, missti af barnaleikritunum tveimur. En skáldsöguna las ég og hafði mikið gaman af. Reyndar held ég að hún sé leikrit, enda öll ýmist í samtölum eða fyrstupersónulýsingum aðalpersónunnar (sumsé eintöl). Og fyrir minn pening þá efndi And Björk, of course… öll fyrirheit sem Maríusögur gáfu um hæfileika og frumlegheit Þorvaldar. Frábær leikhúsupplifun hvar sem á er litið og er enn að þvælast fyrir mér. Ég ætla rétt að vona að Blíðfinnur og Prumpuhóllinn hafi ekki verið svona frábær því þá er ástæða til að óttast um drenginn…
 
Enginn Shakespeare
Það fór á endanum svo að Vesturport lét það gamla splatterleikrit Títus Andróníkus hvíla í friði, trúlega vegna velgengi Með lykil um hálsinn, sem mér tókst því miður að missa af. Vesturport er annars fjári magnað fyrirbæri. Hér með er það sett fremst á ósaminn lista yfir tilhlökkunarefni næsta árs. Við hliðina á Ensambli B. Erlingssonar, náttúrulega.

Upphitað
Jú, loksins sá ég Með fulla vasa af grjóti. Þetta eru nú meiri snillingarnir, þeir Hilmir og Stefán Karl. Algert möst sí fyrir leikhúsáhugafólk. En mikið er þetta (afsakið orðbragðið) Klént leikrit. Jæja, skítt með það!

Þorgeir Tryggvason