Námskeið í tengslum við Pétur Gaut
Í febrúar og mars stendur Þjóðleikhúsið fyrir námskeiði fyrir almenning í tengslum við sýningu leikhússins á Pétri Gaut eftir Henrik Ibsen. Pétur Gautur verður opnunarsýning Kassans, sem er nýtt leiksvið í Þjóðleikhúsinu. Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að opna þátttakendum heim leikhússins og gefa þeim innsýn inn í aðferðir þess. Pétur Gautur er eitt af meistarverkum Henriks Ibsens, snilldarlegur ljóðleikur sem aflaði skáldinu heimsfrægðar. Verkið kom fyrst út á bók árið 1867 en tæpum áratug síðar var það frumflutt og hefur reglulega verið sett upp í frægum uppsetningum í helstu leikhúsum heims síðan þá, enda hefur hin margbrota titilpersóna verksins og knýjandi spurningar um það sem skiptir máli í lífinu og kjarna mannsins heltekið jafnt leikhúslistafólk sem áhorfendur í gegnum tíðina. Mannlegt innsæi höfundarins nýtur sín hér til fulls og ímyndunarafl og hugmyndaauðgi hans fara á óviðjafnanlegt flug, í verki sem er leiftrandi af húmor. Leikstjóri sýningarinnar verður Baltasar Kormákur, sem hefur vakið athygli fyrir frumlegar og myndrænar leiksýningar, bæði á klassískum verkum á borð við Hamlet og Draum á Jónsmessunótt, sem og nýrri verkum. Má þar nefna nýlegustu uppsetningu hans í Þjóðleikhúsinu á Þetta er allt að koma, sem hlaut Grímuna-Íslensku leiklistarverðlaunin 2003. Gretar Reynisson, sem gerir leikmynd sýningarinnar á Pétri Gaut, hlaut jafnframt Grímuna fyrir Þetta er allt að koma. Í titilhlutverkinu verður Björn Hlynur Haraldsson, ungur leikari sem hefur meðal annars vakið athygli fyrir leik...
Sjá meira


