Fulltrúi Leiklistarvefsins heldur áfram umfjöllun um áhugaleikhópinn Fire and Ice Theatre á Keflavíkurflugvelli:
„Þetta verk hentar einstaklega vel á þessum tíma nú þegar jólin nálgast. Það gerir okkur öllum gott að minnast þess hversu lánsöm við í raun erum og þetta verk hjálpar svo sannarlega til við það. Það minnir okkur á hversu lánsöm við erum að fá að lifa öruggu lífi hér á meðan aðrir eru að berjast í fremstu víglínu og fórna lífi og limum,“ segir Freddie Bazen, einn fjögurra hermanna í Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli sem þátt taka í leiklestri á The Christmas Truce sem flutt verður í Kanaútvarpinu nú í jólavikunni.

Um er að ræða leikgerð eftir Aaron Shepard þar sem fjallað er um þann einstaka atburð í fyrri heimstyrjöldinni þegar þúsundir breskra og þýskra hermanna gerðu með sér nokkurs konar óformlegt vopnahlé í um sólarhring á jólunum árið 1914 á vesturvígstöðvunum í Frakklandi. Hermenn beggja vígstöðva hófu fyrst að syngja til hvers annars hver á sínu máli og síðan saman í kór, skriðu því næst upp úr skotgröfunum og hittust á einskismannslandinu. Þar skiptust þeir á gjöfum, reyktu og spjölluðu auk þess að keppa í fótbolta. Næsta dag hélt stríðið síðan áfram.

Hópurinn í upptökuverinu

Hermaður gerist heimavinnandi fjölskyldufaðir
„Á þessum tíma árs fer maður ósjálfrátt að hugsa til allra þeirra sem eru að leggja sitt af mörkum til þess að gera okkar líf betra. Og The Christmas Truce er einstakt dæmi um það sem manneskjur hafa lagt á sig í tímans rás til þess að við getum lifað í betri heimi,“ segir Bazen, sem sjálfur hefur þjónað í sjóher Bandaríkjanna sl. 24 ár. Hann kom hingað til lands í ágúst sl., eftir að hafa verið staðsettur í Mið-Austurlöndum í tvö ár, en Bazen er nýfarinn á eftirlaun. Hann mun þó dvelja áfram hér á landi um ókomin ár þar sem kona hans vinnur sem skólakennari hjá Varnarliðinu. „Ég verð því áfram á Íslandi á meðan hún vinnur hér, en ég mun nú gerast heimavinnandi fjölskyldufaðir og hugsa um börnin,“ segir Bazen og brosir við tilhugsunina. „Ég gæti varla hugsað mér betri stað til að setjast að á. Ef okkur tækist aðeins að losna við hvassviðrið sem hér ríkis þá væri þetta ennþá betri staður.“

Á öllum tímum erfitt að vera hermaður

En Bazen er ekki einn í leiklestrinum því með honum lesa þrír hermenn úr flughernum, þeir Marty Dimmett, sem verið hefur níu ár í hernum, Joe Bozsoki, sem þjónað hefur sl. tíu ár og Albert Dean, sem verið hefur í hernum sl. sex ár. Dimmett og Bozsoki komu hingað í október sl., en Dean hefur verið hér síðan 2004, en allir halda þeir af landi brott í næsta mánuði til annarra eyja í suðri. Leið Dimmett og Bozsoki liggur næst til Okinawa í Japan en Dean fer til Diego Garcia í Kyrrahafinu.

Í samtölum við þá kemur í ljós að þeir hafa farið víða um heiminn og t.a.m. hafa Dimmet og Bozsoki nýverið verið við skyldustörf í Írak og Oman. Aðspurðir segjast þeir aldrei áður hafa starfað með leikfélagi á bandarískri herstöð, enda bjóði kringumstæður ekki upp á slíka starfsemi á þeim hervöllum þar sem þeir hafi verið þó vafalítið sé það, að sögn þeirra, í boði á stærri og rótgrónari völlum í heiminum.

Það liggur beint við að spyrja þá hvort þeir telji að þeir eigi auðveldara með að setja sig í spor hermanna sem þeir eru að leiklesa þar sem eru sjálfir hermenn. „Já, tvímælalaust. Auðvitað hafa aðstæður mikið breyst og við, að miklu leyti, að vinna við mun betri skilyrði. Það er á öllum tímum erfitt fyrir hermenn að þurfa að yfirgefa heimili sín og halda til framandi staða. Ég held samt að aðstæður hafi verið miklu mun erfiðari fyrr á tímum, t.a.m. í fyrri heimstyrjöldinni, heldur en nú. Ekki síst þegar maður hugsar til þess að þeir þurftu að berjast í skotgröfum við hryllilegar og erfiðar aðstæður,“ segir Albert Dean.

Góð leið til að kynnast fólki
Spurðir hvers vegna þeir hafi valið að taka þátt í starfsemi Fire and Ice Theatre á þeim stutta tíma sem þeir dvelja hér á landi svarar Bozsoki að sér hafi þótt spennandi að prufa, auk þess sem ekki hafi spillt fyrir að efnið væri bæði tengt hernaðarsögunni og jólunum. „Það má segja að við séum að slá tvær flugur í einu höggi, þ.e. leggja leikhópnum lið á sama tíma og þetta er góð leið til þess að kynnast öðru fólki,“ bætir Dean við.

Ekki er hægt að sleppa viðmælendunum án þess að forvitnast hvernig Ísland hafi komið þeim fyrir sjónir á þeim stutta tíma sem þeir hafa dvalið hér. „Þetta er frábær eyja,“ segir Dimmett og tekur sérstaklega fram hversu vinalegir Íslendingar hafi komið sér fyrir sjónir. „Við höfum því átt mjög góðar stundir hér,“ segir Dimmett. Aðspurður segir hann því ekki að neita að það sé mikill léttir að vera sendur til friðsæls lands eins og Íslands samanborið við Írak þar sem hann var í fyrra. „En við hlýðum einfaldlega kalli forseta okkar. Við fáum skipanir og gerum það sem þarf að gera. Og ég er afar stoltur af því að þjóna landi mínu á hvar sem mín er þörf, hvort heldur það er á jafn yndislegum stað og Ísland eða annars staðar í heiminum,“ segir Dimmet og Bozsoki tekur undir með honum. „Því er ekki að neita það felst ákveðinn léttir í því að vera sendur til Íslands samanborið við aðra mun hættulegri staði. Við gætum verið í miklu verri aðstæðum annars staðar í heiminum,“ segir Bozsoki.

.

Myndin hér að ofan: Upptakan á jólaútvarpsleikritunum fór fram í útvarpshúsinu á Keflavíkurflugvelli. Frá hægri má sjá Marty Dimmett, Cheryl Stevens, Freddie Bazen, Albert Dean og Joe Bozsoki í upptökuverinu.

Sjá fyrri hluti greinarinnar.