Leiksýningin Stóru börnin, eftir Lilju Sigurðardóttur, sem frumsýnt var 2. nóvember síðastliðinn og naut gríðarlega vinsælda gagnrýnenda sem áhorfenda, snýr aftur í Tjarnarbíó í mars vegna mikillar eftirspurnar. Fjórum aukasýningum hefur verið bætt við, nánar tiltekið 20., 21., 22. og 23. mars.
Sýningin hlaut mikið lof gagnrýnenda og var meðal annars valin leiksýning haustsins af Símoni Birgissyni í Djöflaeyjunni. Þá gaf Jón Viðar Jónsson sýningunni fjórar stjörnur og valdi Rúnar Guðbrandsson leikstjóra ársins.
Tjarnarbíó vekur einnig athygli á því að miðakaupendur geta valið sér sæti á sýninguna. Því er betra að hafa hraðan á og ná sér í gott sæti á þessa sýningu, sem enginn má missa af.
Um leikritið:
Miðaldra smiðurinn Kristján kemur í hús Mömmu í leit að ást sem hann hefur lengi þráð. Ást sem hann er tilbúinn til að borga fyrir. Móðurást. Mamma elskar hann og annast fyrir ákveðna upphæð – rétt eins og hin stóru börnin sín. Stóru börnin sem þurfa svo mikið, krefjast svo mikils, þroskast svo hratt. Mamma sinnir þörfum þeirra, nærir þau, þrífur þau, huggar þau og veitir þeim ráðningu þegar þau eru óþekk.
Stóru börnin eftir Lilju Sigurðardóttur fjallar á margræðan hátt um gildi ástarinnar. Þó verkið hafi nokkuð hefðbundna leikhúsumgjörð er umfjöllunarefnið nýstárlegt og varpar fram spurningum sem vel eiga heima í nútímanum. Er ástin einungis einhvers virði ef hún er ókeypis? Missir hún gildi sitt ef borgað er fyrir hana? Hættir hún þá að vera alvöru ást? Og síðast en ekki síst: er sá sem selur ástina frjáls í því að falbjóða?
Stóru börnin er líflegt og skemmtilegt sviðsverk sem hreyfir við tilfinningunum jafnt og hugsuninni. Í uppsetningu Lab Loks fer úrvalslið leikara með hlutverkin undir stjórn Rúnars Guðbrandssonar:
Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir
Árni Pétur Guðjónsson
Birna Hafstein
Stefán Hallur Stefánsson
Leikmynd og búningar: Drífa Freyju-Ármannsdóttir og Ari Birgir Ágústsson
Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson
Hljóðmynd: Garðar Borgþórsson
Þar sem kynferðislegur undirtónn er í verkinu telst það ekki við hæfi barna.
Tjarnarbíó: Upplýsingar og miðasala
Miði.is: Upplýsingar og miðasala